Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Qupperneq 124
B ó k m e n n t i r
124 TMM 2008 · 2
an húmor, kuldalega stjórnun á ótta okkar og ánægju yfir því skelfilega, en hið
gróteska hefur orðið viðurkennd, ef ekki ríkjandi, aðferð til að takast á við
hættuna sem steðjar að tilveru okkar og velferð.“1
Er forsvaranlegt að bjóða börnum upp á hryllingssögu sem er ekki aðeins
grótesk og skelfileg heldur hunsar samviskulaust markalínur annars af grund-
vallandi bönnum mannlegs samfélags? Og að auki sagði Þórarinn Leifsson í
útvarpsviðtali við Lísu Pálsdóttur að hann ætli að halda sig áfram á þessum
slóðum af því að enginn annar væri á þeim.2
En á þeim slóðum var einu sinni mikil umferð eins og Marina Warner bend-
ir á. Mörg þeirra ævintýra sem við þekkjum hafa verið hreinsuð af hinum
gróteska uppruna sínum, eins og sagan um Þyrnirós sem er laus við bæði
nauðgun og mannát eftir umritanir Grimms bræðra. Í ítalskri gerð hennar var
það konungur en ekki prins sem kyssti Þyrnirós, svaf hjá henni að auki og hún
fæddi tvíbura níu mánuðum síðar – alltaf sofandi. Móðir konungsins var
mannæta og uppáhaldsmaturinn hennar voru smábörn.3
Kóngamóðirin er ein af mannætumæðrum sem töluvert hefur verið skrifað
um í sálgreiningunni og stendur af þeim nokkur hrollur. Frægasta mann-
ætumóðirin í íslenskum þjóðsögum er Grýla. Sögur af tröllum og ófreskjum,
nornum og illþýði sem étur börn eða fólk á besta aldri eru sömuleiðis algengar
og mætti nefna um þær mörg dæmi. Bókmenntafræðingurinn Maria Tatar
sem rannsakað hefur Grimmsævintýrin segir að gömlu alþýðuævintýrin geti
búið yfir sannsögulegum kjarna, þ.e. þær endursegi, feli eða breiði yfir raun-
verulega illa meðferð foreldra á börnum eða barnsmorð í samfélagi skorts og
fáfræði. Þessi ævintýri kristalla fyrst og fremst ótta og hrylling sem tengist
mannlegum samskiptum þar sem sá sterkari ryður þeim veikari úr vegi til að
bjarga sjálfum sér eða staðfesta völd sín.4 Þetta eru mannætur ævintýranna og
við kippum okkur ekkert mikið upp við sögurnar af þeim í dag.
Maðurinn er alæta eins og rottan. Smám saman lærir hann, öfugt við rott-
una, að sumt má maður borða og annað borðar maður ekki. Um þetta ríkir
menningarlegt samkomulag og hvert samfélag hefur ákveðnar reglur um það
hvað sé ætt og óætt. Litla barnið sem ekki hefur lært þessar reglur ennþá gerir
heiðarlegar tilraunir til að éta allt sem fyrir því verður – það setur allt upp í sig.
Leið barna inn í siðmenninguna er vörðuð boðum og bönnum um það hvað
megi borða og hvað ekki. Þar nægir að minna á hinn sívinsæla boðskap Tor-
björns Egner: „Þeir sem bara borða kjöt/ og bjúgu alla daga/ þeir feitir verða’
og flón af því/ og fá svo illt í maga (En gott er að borða gulrótina,/grófa brauð-
ið steinseljuna,/krækiber og kartöflur og kálblöð og hrámeti.)“
Við borðum ekki það sem er of líkt okkur og ekki það sem er of ólíkt. Þú ert
það sem þú borðar segir máltækið (á þýsku: „Du ist was du isst”) og þegar
maður étur mann verður samruni sem fer yfir mörk hins þekkta og leyfilega,
mörkin milli þess sem er inni og úti og þetta vekur nautn sem getur orðið að
alsælu verði hún ekki að martröð.5 Þessi tenging við nautnir munnsins sýna
sambandið milli matar og kynlífs sem oft hefur verið bent á í barna- og ungl-
ingabókum. Þar kemur matur í stað kynlífs, börnin og unglingarnir éta alveg