Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 132
B ó k m e n n t i r
132 TMM 2008 · 2
fram skemmtilega og áhugaverða greiningu í háðsempírískum anda í 12 liðum
sem líta má á sem kjarna greiningar hans á samtímanum (bls. 86–88). Þegar
betur er gáð reynist þetta allt eiga ágætlega við auðhyggjurétttrúnað nútímans
sem er reyndar hið raunverulega umfjöllunarefni EMJ og helgast það af vax-
andi alræði þessarar stefnu seinustu tvo áratugina, meðal annars í Frakklandi
þar sem hann þekkir best til.
Munurinn á þessari tilteknu alræðisstefnu og hinum tískukreddunum (og
EMJ gerir sér ágæta grein fyrir þessu) er hins vegar sá að flestar tískusveifl-
urnar í háskólaheiminum urðu aldrei verulega öflugar utan hans (þó að sumar
hefðu talsverð almenn áhrif) en auðhyggjurétttrúnaður nútímans hefur gjörv-
allt hið veraldlega vald í heiminum á bak við sig (á því eru varla neinar und-
antekningar) og andleg kúgun hans er því mun meiri og kerfisbundnari en
nokkurrar annarrar tískuhugmyndafræði sem lýst er í bókinni. Þetta er hvat-
inn á bak við bréfið og þó að skynsemin og söguþekkingin segi EMJ að þessi
dilla muni líða undir lok eins og aðrar hefur hann talsverðar áhyggjur af því
hvað eftir muni þá standa af þeirri siðmenningu sem þó hefur tekist að koma
upp í heiminum seinustu tvær aldirnar. Og það er vissulega ástæða til að hafa
áhyggjur af þessu þó að teikn séu á lofti um að andófi gegn auðhyggjurétttrún-
aðinum muni ef til vill senn vaxa fiskur um hrygg.
Til annálunga sækir EMJ áhugaverðan greinarmun á „skammtíma“, „mið-
tíma“ og „langtíma“ (bls. 62–66) sem hann nýtir á ágætlega lausbeislaðan hátt
til að fá yfirsýn yfir tískubylgjur og aðrar hræringar í fræðaheiminum. Hann
fer þar gjarnan óvæntar leiðir og innan um dæmisögur og pólitískar rökræður
bregður líka fyrir ágætri listrýni og satíru af sígilda taginu. Fáir munu verða
sammála öllum viðhorfum EMJ enda er ekki til þess ætlast, til þess er stíll hans
of ögrandi og höfundurinn of óhræddur við að hefja sig yfir allan plebbisma.
En um leið er varla annað hægt en að virða það hversu óhræddur hann er að
tjá viðhorf sín, án þess að vera sífellt að smjaðra fyrir ímynduðum fordómum
lesandans og einnig hinu hvernig hann tekur aftur og aftur áhættuna á að vera
sakaður um hvers konar rembu. Þar með veitir hann stundum höggstað á sér
en um leið eykst gildi verksins, það er ekki áróðursrit heldur vægðarlaus hugs-
un manns sem þorir að finnast eitt betra en annað og að standa og falla með
öllum sínum eigin smekksdómum.
Í skrifum sínum er EMJ allsendis óþjakaður af minnimáttarkennd og deilir
hart á allar stefnur sem hann glímir við. Hann sér veikleika í hugmyndum allra
helstu kenningasmiða 19. og 20. aldar, og má þar nefna Freud, Marx og Sartre.
Aðallega gagnrýnir hann þó kreddufullar og takmarkandi útlistanir ýmissa
minni spámanna sem hafa haft þessa menn að skurðgoðum og bendir réttilega
á margt sorglegt og um leið spaugilegt sem gerist þegar fólk hættir að hugsa
sjálft og verður ofurselt tískuheimspeki. Fundið hefur verið að því að EMJ
gangi of langt á köflum í að hnýta í kennisetningar (einkum póst-strúktúra-
lista) sem hafi þó margt lagt nýtilegt til málanna til betri skilnings á mann-
félaginu. Broddurinn í gagnrýni hans beinist þó að minni hyggju einkum að
þeim sem lepja upp kenningar lærifeðranna án gagnrýni og oft af takmörk-