Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 134
B ó k m e n n t i r
134 TMM 2008 · 2
Sovétríkjanna, bæði beint og óbeint. Sláandi skýrt samhengi er milli uppgangs
trúarafturhaldsins og þessarar mislukkuðu utanríkisstefnu. Núna kappkosta
þeir sem aðhyllast auðhyggjufasíska sýn á heiminn að útmála þessa hina sína
fyrri bandamenn sem hina einu raunverulegu ógn við auðhyggjurétttrún-
aðinn, vitandi sem er að enginn sem hefur alist upp við sæmilegt frelsi vill fá
yfir sig trúarafturhald, ekki einu sinni í skiptum fyrir alræði auðhyggjunnar.
Eins og tíðkast í orðræðu alræðisins er það borið á borð fyrir okkur hin valda-
litlu að valkostirnir séu aðeins tveir: „nútíminn“ og afturhaldssöm trúarvið-
horf. Ekkert annað sé til nema þetta tvennt og mikilvægt sé því að allir sem
ekki vilja stjórna heiminum miðað við ævaforn biblíulög af ýmsu tagi samein-
ist undir merkjum auðhyggjurétttrúnaðarins, sem nú kennir sig gjarnan við
frelsi af ýmsu tagi.
Það er ekki laust við að almennir lesendur sakni þess svolítið að EMJ ræðir
lítið þennan nýjasta kafla í sögu auðhyggjurétttrúnaðarins því að ljóst er að
„langtímasýn“ hans á þessa viðburði gæti verið afar gagnleg og veitt nýrri
hugsun inn í umræðu sem þarf hennar við. Kannski væri viðeigandi að ljúka
þessari umfjöllun með því að heimta annað bréf frá Einari Má Jónssyni?
Eiríkur Örn Norðdahl
Rekinn á hol – af tvíeggjuðum
sverðum
Hugleikur Dagsson: Fylgið okkur. JPV útgáfa 2006.
Ýktar smásjármyndir Hugleiks Dagssonar af samfélagi samtímans virðast
ýmist gefa til kynna að þar fari brennandi móralisti sem sjái andskotann í
öllum hornum eða pípandi geðsjúklingur sem æskir einskis frekar en að ein-
hver stöðvi sig. Enskir titlar tveggja myndasagnasafna Hugleiks hljóma eins og
óp níhilískrar sálar sem hefur fengið nóg af því að fá að vaða uppi: „Á þetta að
vera fyndið?“ og „Ættir þú að vera að hlæja að þessu?“
List Hugleiks er list siðleysisins, bæði fyrir hið augljósa að hún gengur skref-
inu lengra í kímni sinni en eðlilegt þykir, og hún fjallar um siðleysi samtímans.
Helsti vandi heimsósómalistar síðustu áratugina hefur verið að forðast vít-
isgjár móralískra predikana – það eru allir komnir með leið á því fyrir löngu
að einhver segi þeim hvað þeir mega og hvað ekki. Hugleikur – eins og margir
popplistamenn samtímans – leysir þessa þverstæðu með mótsögn: Hann iðkar
sjálfur siðleysið sem hann fordæmir, og þar með þarf enginn að fá samviskubit
við lesturinn. Lesandi situr þannig uppi með bók með grafískum myndum af