Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Síða 135
B ó k m e n n t i r
TMM 2008 · 2 135
morðum og misþyrmingum, sem samtímis fordæmir morð og misþyrmingar
með því að sýna slíka gjörninga sem afleiðingar samtímasamfélagsins (þar sem
allt úir og grúir af grafískum morðum og misþyrmingum – allt í plati).
Tveimur herrum er þjónað, hið minnsta:
1 Hinir pólitískt réttsýnu fá útrás fyrir réttlætiskennd sína, og hugmynda-
heimur þeirra um ógeð samtímans fær ótvíræðan stuðning. Allt þetta ofbeldi
í samtímanum er augljóslega geggjun.
2 Hinir pólitískt ranglátu fá skammt sinn af blóði og ógeði, og sú skoðun
þeirra að blóð, hland og sæði séu það allra fyndnasta í veröldinni fær ótvíræð-
an stuðning. Allt þetta ofbeldi í samtímanum er augljóslega geggjað.
Hið transgressífa er í aðalhlutverki í verkum Hugleiks. Transgressjón er nokk-
urs konar gegnumbrotalist – list sem gengur út yfir mörk hins eðlilega, við-
urkennda siðferðis og ofbýður neytendum sínum: Maður verður fyrir geislun
og á hann vaxa 300 typpi, englar ríða dýrslega á skýi, maður kemur að konunni
sinni, besta vini sínum, mömmu sinni, yfirmanni sínum, hundinum sínum og
jólasveininum saman í rúminu. Og þar fram eftir öllum götum endalaust,
amen.
Spurningin er því ennþá þessi: Ætti nokkur maður að hlæja að þessu? Bækur
Hugleiks hafa notið mikilla vinsælda, bæði á Íslandi og erlendis, svo varla
ofbýður nokkrum manni í raun og veru saurklámshúmor – og er þá nokkuð
eftir af transgressjóninni? Það er vart neitt gegnumbrot sem límist á hlát-
urmildar sálir smáborgaranna jafn ljúflega og flíspeysur og yfirdráttarlán.
Og allt er þetta engu að síður bráðfyndið. Hedónískur húmor Hugleiks er
slík allsherjarreið gegn almennu velsæmi að það þyrfti hálfdauðan lesanda til
þess að hrökkva ekki fram úr sætinu af hlátri – þegar best lætur. Og það er
sömuleiðis eitthvað réttlátt við hann. Hann er birtingarmynd allra okkar
sjúklegustu hugsana og gjörða – ef það er þá yfir höfuð réttlætanlegt að nota
orð eins og sjúklegt í samhengi sem lýsir eiginleikum sem einkenna líf nær
hverrar einustu manneskju á vesturhveli jarðar, sama hversu skinhelg hún er.
Bókin sem hér er til umfjöllunar – Fylgið okkur – byrjar og endar á falli. Á
fyrstu síðu liggur maður í blóði sínu neðst í tröppum sem liggja upp og út af
blaðsíðunni, og segir „Ég datt“. Á lokasíðu liggur engill í blóði sínu og segir hið
sama. Þar á milli eru ótal ónúmeraðar blaðsíður, sem hver inniheldur sína
sögu, fullar af öllu heimsins ógeði – stundum er lesturinn eins og að lesa
furðufréttir dagblaðanna: Barn fæðist án hjarta; menn setja heimsmet í rass-
aríðingum á hjólabretti; Hitler finnst í kjallara; hvítvoðungur stíflar klósett.
Þannig vefur Hugleikur mikla búta-epík um samtíma sinn. Skyndimynd-
irnar mynda heila veröld, speglasal fyrir firrtan nútímamann sem veit að offita
og anorexía er ekkert grín – en hlær samt að teygðum skrokki sínum í spegli
sem sýnir honum í senn sannleika um hann sjálfan og afleiðingar þess ef geð-
sjúkur veruleiki samtímans fær að gróa.
Búta-epíkin – sú list að segja mikla sögu með sterkum þemum í mörgum