Tímarit Máls og menningar - 01.05.2008, Page 141
B ó k m e n n t i r
TMM 2008 · 2 141
Ljóð bjóða upp á aðra sýn á heiminn en akademísk hugsun, aðra tegund skiln-
ings, en það verður að fara jafnlangt og Sindri gerir inn í ríkjandi hugsana- og
málfarsstrúktúr til að ná eyrum fólks og það heppnast vel. Sjálfur skáldskap-
urinn smyglar sér þó með og þyrfti aðra grein til að fjalla um þann útsmogna
laumufarþega. Dæmi um ummerki hans er í ljóðinu 100% bílalán (41).
Gleraugun héluð
Ísdropar í vikugömlu skegginu
Varirnar fela ekki tannaglamrið
Vill sofna í snjóskafli
Í falsskjóli frá deyðandi
höndum vindsins
Afturljós jeppans depla
rauð í skurðinum
og breyta rúðumylsnunni í
blóðdropa
Hér er augljós írónía á ferð. Til dæmis fær orðið lán í samhenginu bílalán, þver-
öfuga merkingu í ljósi slyssins. Þó það megi ekki lesa bókstaflega gerir írónískt
innihald ljóðsins að það heitir í raun 100% bílaólán. Ó-sýnileg írónían birtist í
ó. En þó írónían sé sterk og komi notalegri vitundarhreyfingu á merkinguna
er myndin af glerbrotunum sem breytast í blóðdropa í takt við deplandi aft-
urljósin það sem tollir lengst í huganum. Sú rafknúna, blikkandi metafóra er
hið upprunalega, ævagamla andlit laumufarþegans sem lagði af stað út úr
skóginum í árdaga ekki klæddur öðru en hárinu á kroppnum. Vegna þess að
hann kemst lymskulegur leiðar sinnar um huga nútímamannsins má segja um
verkið, líkt og maður væri að tala um stórkostlegan glæp sem aldrei komst upp;
það er vel skipulagður skáldskapur. Ástæðan fyrir að skáldið kemst upp með
glæpinn er að það veit hinn skelfilega leyndardóm: Akademísk hugsun er innst
inni byggð upp eins og söguljóð, menn vilja bara ekki vita það því þá gætu þeir
misst trúna á framþróunina. En sama hve vel menn reyna að fela það; trú-
verðugleiki röksemdafærslu byggir ennþá á dramatískri framvindu og bygg-
ingu, hugmyndafræði er alltaf náskyld persónusköpun sem skýrir í og með
hversvegna menn taka gagnrýni á hana persónulega, og sama hve flókin og
ómyndræn táknin verða, þau miðla skilningi alltaf á endanum með því að vera
hluti af metafórum.
Í (M)orði og myndum smyglar laumufarþeginn óræðri og þar með verð-
mætri merkingunni í hendur neytandans. Skipuleggjandi glæpsins situr í
öruggri fjarlægð á sólstól með bjór og nýtur góðs af ágóðanum.