Ráðunautafundur - 15.02.1991, Blaðsíða 61
-53-
Búféð. Fylgjast þarf náið með afurðum og þrifum beitarfjár. Hjá mjólkurkúm er
fylgst með nyt og holdafari, en hjá geldneytum og sauðfé er eingöngu fylgst með
holdafari. Þar sem auðvelt er að koma því við er rétt að vigta gripina öðru hvoru,
sérstaklega ef þeir eru færðir milli beitarstykkja. Einnig er hægt að fylgjast með
holdafarinu með því að gefa gripunum holdastig eftir sérstöku kerfi. Fjöldi kerfa
hafa verið þróuð í þessu sambandi erlendis og einnig hafa nokkur verið notuð hér á
landi. Mikilvægt er að samræma þessi kerfi innan hverrar búfjártegundar og þjálfa
bændur í notkun þeirra. Þeir bændur sem vilja geta þróað sitt eigið kerfi. Breytingar
í holdafari mjólkurkúa byggist ekki eingöngu á gæðum og magni beitarinnar, heldur
einnig á því í hversu mikilli nyt þær eru og hversu miklum holdum. Kýr í mikilli nyt
snemma á mjaltaskeiðinu tapa venjulega holdum hversu góð sem beitin er, sérstaklega
ef þær voru holdmiklar við burð. Aftur á móti ef þær voru holdlitlar um burðin geta
þær jafnvel bætt á sig holdum á mjaltaskeiðinu ef beitin er góð, sérstaklega ef
fóðurbætir er gefin með. Ekki er síður mikilvægt að meta holdin hjá kúm seint á
mjaltaskeiðinu og í geldstöðu, til að tryggja að þær séu í góðu ásigkomulagi um
burðin. Hold kálfa og vetrunga ættu aldrei að slakna á sumarbeit, en ef það gerist
þarf að bæta beitina. Holdafar sauðfjár þarf að meta á haustin þegar það kemur af
úthaga, til að ákvarða hversu gott beitiland það þarf og hvaða lömbum þarf að slátra
í fyrstu slátrun og hvaða lömb þarf að bata.
BEITARKERFI
Hér verður aðeins lítillega minnst á mismunandi beitarkerfi, en bent á grein um
sumarbeit mjólkurkúa í Frey frá 1981 (8) ef áhugi er að fræðast nánar um þau. Það
fer aðallega eftir aðstæðum á hverjum stað hvaða kerfi hentar best, s.s. innbyrðis
afstöðu túna, aðgangs að stykkjum, stærð þeirra, fyrirkomulagi girðinga og skurða og
aðgangs að drykkjarvatni. Ef um beit mjólkurkúa er að ræða skiptir afstaða fjóss til
beitilandsins miklu máli. í stórum dráttum má skipta beitarkerfum í stöðuga beit og
skiptibeit. í tilraunum með mjólkurkýr erlendis hefur mjólkurframleiðsla verið svipuð
hvort kerfið sem notað er (2. mynd). Skiptibeit gefur meiri möguleika í sambandi við
stjórnun beitar heldur en stöðug beit, auk þess sem hún hentar betur þegar um
mikinn beitarþunga er að ræða. Það má því segja að þar sem tún eru stór í hlutfalli
við búfjárfjölda, eins og víða er hér á landi eftir að kvóti var settur á framleiðslu, sé
minni þörf fyrir skiptibeit en áður. Aðstæður til skiptibeitar hafa aftur á móti batnað
með tilkomu rúllubaggatækninnar, en skiptibeit hentar illa þar sem eingöngu er verkað
þurrhey. Skiptibeit hentar betur þar sem beitartími er langur (5 mánuðir eða meira),
L