Ráðunautafundur - 15.02.1991, Blaðsíða 64
-56-
FÓÐURBÆTISGJÖF MEÐ BEIT
Fullnægja má þörfum fyrir að minnsta kosti 20 kg nyt hjá kúm með beit einni saman.
Hámjólka vorbærum þarf að gefa fóðurbæti með beitinni, til að mæta orkuþörfum.
Því miður kemur fóðurbætirinn ekki eingöngu sem viðbót við beitina, heldur getur
hann dregið úr því sem skepnurnar bíta. Þessi minnkun er misjöfn, bæði eftir eðli
fóðurbætisins og beitarinnar, t.d. minnkar átið yfirleitt meira eftir því sem meltanleiki
grassins eykst. Við háan meltanleika lætur nærri að þurrefnisát á beit minnki um
kjarnfóðurgjöfina, þ.e. um eitt kg fyrir hvert kg af kjarnfóðri. Einnig hefur
trénisinnihald fóðurbætisins áhrif. Þá hefur magn fóðurbætisins sem gefin er og þess
gróðurs sem skepnurnar hafa aðgang að mikil áhrif, því eftir því sem meiri gróður er
fyrir hendi þegar kjarnfóður er gefið, þeim mun líklegra er að það dragi úr áti
gripanna á beitargróðri.
Á vissum tímum t.d. á haustin getur þurft að gefa prótein með beitinni til að
mæta þörfum. Ólíkt orkugjöfunum getur próteinríkur fóðurbætir, t.d. fiskimjöl, aukið
beitina, sérstaklega ef prótein í gróðrinum er mjög lágt. Eftir því sem prótein í
grösunum aukast minnkar þessi aukning og ef próteingjafi er gefin með próteinríkri
beit getur það dregið úr beitinni eins og þegar orkugjafar eru gefnir. Á vissum tímum
getur vambarleysanleiki próteina í plöntum verið mikill og því getur nýting
próteinanna til framleiðslu orðið lítil þó innihaldið í plöntunum sé hátt. Hægt er að
bæta þetta upp með því að gefa fóður með torleystum próteinum, s.s. fiskimjöl.
Stundum hefur gengið illa að fá skepnur til að éta fiskimjöl með beit, en það fer
mikið eftir gæðum og framleiðsluaðferð mjölsins, svo og ástandi beitarinnar. Það er
því mikilvægt að velja vel það fóður sem gefa á með beit.
ÁBURÐARGJÖF
Beitaráætlanir þurfa að liggja fyrir í síðasta lagi þegar borið er á á vorin. Bera þarf
á sum stykki til beitar eingöngu, önnur til sláttar og beitar og enn önnur til beitar og
sláttar o.s.frv. Það þarf því í mörgum tilfellum að bera á túnin á mismunandi tímum
á vorin og mismunandi magn eftir því hvernig nota á þau um sumarið. Einnig þarf
að skipta áburðarskömmtum og bera á tvisvar eða jafnvel oftar á sumri, allt eftir því
hvernig aðstæður eru og hvernig haga á beitinni. Ef skiptibeit er notuð þarf t.d. að
bera á hvert hólf fyrir sig strax og skepnurnar eru teknar af landinu. Varast skal að
bera mikinn kalfáburð á beitiland á vorin, sérstaklega þarf að hafa þetta í huga þar
sem búfjáráburður, s.s. hland, er borið á vegna þess að það getur dregið úr nýtingu
magníums og orsakað graskrampa.