Ráðunautafundur - 15.02.1991, Blaðsíða 226
-218-
Þetta er því óraunhæfur kostur í almennu ræktunarstarfi og kemur einungis til greina
á sérhæfðum rannsóknar- eða ræktunarstöðvum með mikil fjárráð.
Sá kostur, sem nú virðist fysilegur til almennra nota er svokallað hljóðmyndatæki
eða ómsjá (ultrasomic scanner). Þessi tækni felst í að senda ..ultra'-hljóðbylgjur í
gegnum hrygg skepnunnar og nema endurkast þeirra, sem verður við hver vefjaskil í
hryggnum. Endurkast frá vefjaskilunum, þ.e. skinn-fita, fita-vöðvi, vöðvi-bein, kemur
síðan fram á skjá sem þverskurðarmynd af hryggnum, þannig að unnt er að mæla
bæði þykkt fitunnar og dýpt vöðvans. Þessar mælingar má gera strax á skjá tækisins
eða prenta myndina á pappír og mæla síðar.
Danir hafa beitt þessari tækni um nokkurt árabil á lambhrúta, sem árlega eru
einstaklingsprófaðir þar í landi með tilliti til vaxtargetu, fóðurnýtingar og kjöteiginleika.
Niðurstöður þessara mælinga eru síðan notaðar til útreiknings á kynbótaeinkunn fyrir
hvern eiginleika og einni heildareinkunn (30). í dönskum og finnskum rannsóknum
hefur mælst fylgni upp á 0,52-0,55 milli hljóðmyndamælinga á hrygg lifandi lamba og
þverskurðarflatarmáls bakvöðvans í gálga (30). í Edinborg útskýrðu samskonar
mælingar, ásamt þunga á fæti, 63% af breytileika vöðvamagns og 41% af breytileika
í vöðvahlutfalli lambaskrokka (29). Þar er nú síðan 1986 í gangi sérstakt kynbóta-
verkefni með Suffolk fé, þar sem valið er eftir kynbótaeinkunn, sem er samsett úr
þunga á fæti, þykkt bakvöðvans og fituþykkt í hrygg (mælt á hljóðmyndum) á sama
aldri (29). Annars vegar er úrvalslína, þar sem árlega eru valdir til ásetnings 6
einkunnahæstu hrútarnir, en hins vegar er viðmiðunarhópur, þar sem ásetningshrútar
eru valdir með meðaleinkunn. Áætluð framför í úrvalslínunni er 194 g árleg aukning
í vöðva en 67 g aukning í fitu við 150 daga aldur, en af því leiðir vaxandi vöðva-
hlutfall skrokksins á hverju aldursstigi. Niðurstöður frá 1989 sýna jákvæðan árangur,
en þá þegar var kominn fram 2,6% munur í þunga á fæti, 6,2% munur á vöðvaþykkt
og 7,0% munur á fituþykkt milli lambhrúta í valda og óvalda hópnum við 150 daga
aldur.
Haustið 1990 hófust rannsóknir á notkun hljóðmynda við sauðfjárkynbætur hér á
landi, og fara þær fram á Hesti. Markmið þeirra eru eftirfarandi:
a) Að meta nákvæmni hljóðmyndamælinga á vöðva- og fituþykkt haustlamba.
b) Að meta fylgni slíkra mælinga við vefjahlutföll skrokksins.
c) Að bera saman einstaklingsprófun (performance testing) á grundvelli
hljóðmynda- og annarra útvortismælinga og afkvæmarannsóknir með
skrokkmælingum með tilliti til:
i) nákvæmni við mat á kynbótagildi einstaklinga,
ii) áætlaðs hraða erfðaframfara,
iii) kostnaðar og hagkvæmni í kynbótum.
d) Að þróa kynbótaeinkunnir fyrir kjötgæði lamba.