Ráðunautafundur - 15.02.1991, Blaðsíða 232
-224-
LOKAORÐ
Hér að framan hefur verið fjallað um meginmarkmið í íslenskri sauðfjárrækt, raktar
helstu aðferðir sem beitt er við kynbæturnar og drepið á sérstaka áhersluþætti og
nýmæli til aukins árangurs. Því fer fjarri að öllum þáttum hafi verið gerð skil, og
hefði t.d. verið verðugt að koma inn á hugsanlegar breytingar á framleiðsluháttum, s.s.
slátrun á mismunandi árstíma, úrvinnslu úr sauðamjólk o.fl. og hvernig það snýr að
kynbótastarfinu. Þá hefur ekki verið fjallað sérstaklega um erfðagalla, en þeir eru
sumir þess eðlis, að menn þurfa að vera sérstaklega á varðbergi gagnvart þeim í
ræktuninni.
í erindi sem þessu er líka ástæða til að velta fyrir sér, hvort íslenska fjárkynið
sé endilega það eina rétta til að byggja sauðfjárbúskap hér á. Við því er ekkert
einhlítt svar. Vissulega hræðir reynsla fortíðarinnar, en á hinn bóginn er nú til staðar
sú tækni, að ætla verður að innflutningur nýrra stofna sé mögulegur án teljandi áhættu
af smitsjúkdómum, ef nægilegrar varúðar er gætt.
íslenska féð er að eðlisfari frjósamt og mjólkurlagið, og ullin hefur sérstæða
eiginleika, sem flestir telja ástæðu til að viðhalda. Ýmis erlend fjárkyn búa hins vegar
yfir meiri vaxtargetu og betri holdaeiginleikum. Þá eiginleika mætti vafalítið bæta
með innflutningi fjár af völdu kyni, sem notað væri hér til einblendingsræktunar, að
því tilskyldu að það fé þrífist við íslenskar aðstæður og skapa ekki sérstaka erfiðleika,
t.d. við burð. Það væri vissulega spennandi rannsóknarverkefni að reyna slíka ræktun
á tilraunabúi, þótt ekki hafi enn þótt ástæða til að sækja um slíkt. Þörfina fyrir þessa
blöndun verður einnig að meta í ljósi þess, að innan okkar eigin kyns er mikill
breytileiki sem gefur möguleika á að bæta til muna kjötframleiðslu okkar. Þá ber að
hafa í huga, að á íslandi er engin hefð fyrir blendingsrækt, og því tvísýnt hvernig
tækist að viðhalda til langframa tveim eða fleirum hreinum fjárkynjum. Það er
mikilvægt að varðveita íslenska fjárkynið hreint, vegna þess að það býr yfir ýmsum
sérstæðum eiginleikum, s.s. litafjölbreytni, ullargerð og vissum þáttum er snerta
frjósemi. Þessir eiginleikar kunna síðar að reynast verðmætir til útflutnings og hafa
þegar vakið athygli víða erlendis. Þegar hefur útflutningur átt sér stað á þessum
forsendum, þótt í smáum stíl sé.
Sæðingarnar eru og verða enn um sinn virkasta tækið, sem við höfum til að
útbreiða erfðaframfarir í stofninum. Árangurinn ræðst og mun ráðast af því hversu
vel tekst til um val hrúta og hvernig að öðru leyti tekst að fá bændur til þátttöku.
Val sæðingarhrúta er ávalt vandasamt, ekki síst vegna þess hve upplýsingar um gildi
hrúta sem ærfeðra eru oftast takmarkaðar, meðan þeir eru enn á góðum aldri. Það