Ráðunautafundur - 15.02.1991, Blaðsíða 210
-202-
rannsókn hér á landi hefur verið sýnt fram á neikvætt erfðasamband milli eðlislægrar
vaxtargetu og móðuráhrifa, og reyndist erfðafylgnin vera -0,41 (14). Hliðstæðar
niðurstöður höfðu áður fengist í erlendum rannsóknum með fleiri fjárkyn (15, 16, 17).
Við okkar skilyrði, þar sem lömbin ganga í langflestum tilvikum undir mæðrum sínum
fram undir slátrun, er móðurþátturinn örugglega veigameiri með tilliti til haustþungans.
Ætla verður, að úrval fyrir auknum haustþunga/fallþunga, samhliða því að taka tillit
til afurðaeinkunnar mæðra við val ásetningslamba, skili hvað bestum framförum í
lambavænleika.
Skýrsluhald fjárræktarfélaganna byggir í stórum dráttum á ofangreindum sjónar-
miðum. Þar er mest áhersla lögð á söfnun upplýsinga um frjósemi og lambavænleika
að hausti, en aðrir þættir svo sem flokkun kjöts, litarháttur lamba og ullarmagn hafa
mun minna vægi. Hér þykir rétt að gefa lauslegt yfirlit yfir vissa þætti skýrsluhaldsins
og einkunnagjafir í fjárræktarfélögunum, en fyllri lýsingu er að finna í Handbók bænda
1979 og í þremur greinum eftir Jón Viðar Jónmundsson og Svein Hallgrímsson (19,
20, 21).
Frjósemi ánna
Ekki er reiknuð sérstök frjósemiseinkunn fyrir ær né frjósemin reiknuð inn í afurða-
einkunn þeirra. Frjósemin er hins vegar skráð hjá hverri á í fjárbók, þannig að sjá
má hve oft ærin hefur verið marglembd, tvílembd eða einlembd og lambafjöldi hennar
gemlingsárið. Frjóseminni er þannig haldið aðgreindri frá fallþunga, vegna þess að
menn vilja geta lagt mismunandi vægi á þessa eiginleika við kynbótaúrval. Hins vegar
er frjósemi áa reiknuð inn í dætraeinkunnir hrúta, eins og síðar verður að vikið.
Fallþungaeinkunn áa
Skýrslufærðar ær, sem skila lömbum að hausti, fá fallþungaeinkunn á bilinu 0,1-9,9
með meðaltali 5,0 og staðalfráviki 1,43, sem þýðir, að 68,6% áa fá einkunn á bilinu
3,6 til 6,4 og 99,98% frá 0 til 10. Fyrir útreikning einkunnar koma margháttaðar
leiðréttingar til, sem eiga að staðla og gera sambærilegar einkunnir allra áa á hverju
búi. Allar þessar leiðréttingar eru gerðar innan hvers bús og einkunnirnar sömuleiðis,
þannig að einkunnakerfið gerir ekki mögulegan samanburð á milli búa. Sama gildir
um einkunnir hrútanna, og eru þeir heldur ekki sambærilegir nema þeir séu notaðir
á sama búi. Skulu nú taldar upp helstu leiðréttingar á fallþunga, sem einkunnagjöfin
byggist á.