Orð og tunga - 01.06.2016, Page 156
146 Orð og tunga
eru skýrir og vel fram settir svo að notendur hennar ættu ekki að
velkjast í vafa um hvernig hún er saman sett og hvernig þeir geta
notað hana og notið sem best.
Titill bókarinnar, Orð að sönnu, merkir ‘satt orð, sannyrði, sann leik-
ur’. Orð er þarna í eintölu og titillinn merkir þá væntanlega „almenn
sannindi eða reynsluspeki, fullyrðingar sem vísa til þess sem er satt
og rétt samkvæmt reynslu“ eins og segir á bls. ix í bókinni, sbr. og
umræðu höfundar um fornt orð (bls. x). En orð að sönnu getur þó allt
eins merkt í mínum huga ‘e-ð sem er vel orðað, hittir í mark’ en þarf
ekki endilega að vera meitlaður málsháttur eða orðskviður.
Bókin er mikið eljuverk og umfangsmesta safn íslenskra málshátta
og orðskviða sem sett hefur verið saman. Fyrri söfn af þessu tagi hafa
verið mun minni í sniðum. Þannig er safn íslenskra málshátta, sem
Almenna bókafélagið gaf út 1986 (Bjarni Vilhjálmsson 1986), rúmlega
hálfdrættingur á við Orð að sönnu að blaðsíðutali og þar var sá galli á
að skýringar vantaði við málshættina. Hér hefur verið rækilega bætt
úr.
2 Skilgreiningar, tegundir málshátta og
afmörkun efnis
Höfundur skilgreinir í inngangi hvað hann telur vera tækt í þessa bók,
þ.e. hver afmörkun efnisins er. Þar eru efst á blaði málshættir sem
höf undur skiptir í spakmæli eða sannmæli (1a), t.d. Kapp er best með
forsjá, og eiginlega málshætti (1b), t.d. Að ósi skal á stemma. Þarna er sá
skils munur að í þeim síðarnefnda er „fólgin líking eða samanburður,
hann er oft myndrænn og jafnan tvíræður að merkingu, hefur annars
vegar beina merkingu og hins vegar yfirfærða“ (bls. ix). Höfundur
gerir viljandi ekki greinarmun á þessu tvennu í bókinni, lítur á það
sem eina samstæða heild, og fylgir hann í því Finni Jónssyni (1920)
og þeim útgefendum málshátta sem á eftir hafa komið. Það virðist
vera skynsamleg nálgun. Einkenni hinna eiginlegu málshátta eru oft
stuðlasetning, endarím og innrím en þessi sérkenni virðast ekki nægja
til þess að greina algerlega á milli þeirra og spakmæla/sannmæla. Vafi
kann að leika á því hvort málshátturinn Um líða allar hátíðir, sem Jón
tekur sem dæmi um 1a, á heima þar. Líta má til innríms og stuðla-
setningar í því dæmi og þá er hann í flokki 1b, sbr. Afl fylgir aldri
manns.
tunga_18.indb 146 11.3.2016 14:41:20