Skírnir - 01.09.2017, Page 29
293fingraför fornsagnahöfunda
götur síðan. Ein snjallasta grein Barða um efnið ber titilinn „Stað -
þekking og áttamiðanir Njáluhöfundar“ (1938). Þar tók Barði undir
með Einari Ólafi að höfundurinn væri staðkunnugur á Austurlandi
en hann kannaði jafnframt með hvaða hætti viðkomandi notaði
orðalagið vestur/vestan og austur/austan þegar hann lýsti ferðum
persóna um Suðurland. Sýndist Barða orðanotkunin benda til að
sagan hefði verið rituð í Flóa eða Ölfusi. Með því að tengja saman
þessar tvær ályktanir komst Barði að eftirfarandi niðurstöðu: „Höf-
undurinn er alinn upp í Múlaþingi, en skrifar söguna í Árnes -
þingi.“25 Lýsingin átti vel við Þorvarð sem var fæddur á Val þjófs-
stað í Fljótsdal en bjó síðustu sjö ár ævi sinnar á Arnarbæli í Ölfusi.
Meðal annarra greina Barða má nefna „Myndskerinn mikli frá
Valþjófsstað“ (1939) þar sem hann reyndi að sýna fram á að ýmsar
persónur sögunnar væru byggðar á fyrirmyndum úr íslensku sam-
félagi þrettándu aldar: „Höfundur Njálu fyllir eyður arfsagnanna
með atvikum úr eigin reynd,“ skrifaði Barði meðal annars.26 Taldi
hann að Gunnar á Hlíðarenda væri byggður á Oddi Þórarinssyni,
bróður Þorvarðar, Njáll og Bergþóra á Hálfdani Sæmundarsyni og
Steinvöru á Keldum, og Síðu-Hallur væri hliðstæður Brandi ábóta
Jónssyni, en hann var föðurbróðir Þorvarðar. Í málflutningi sínum
beitti Barði bæði innri og ytri rökum en þau síðarnefndu skiptu
höfuðmáli fyrir þá túlkun hans að Njála væri eins konar lykilsaga
(fr. roman à clef) þrettándu aldar. En Barði taldi líka, líkt og Halldís
Ármannsdóttir, að nafn höfundar leyndist í texta sögunnar. Í grein-
inni „Örgumleiði, gerpir, Arnljótarson“ (1949) gerði hann sér mat
úr því að í elstu Njáluhandritum væru aðeins nefndir tveir þrett-
ándu aldar menn, Kolbeinn ungi, „á allt annað en virðulegan hátt“
og „Þorvarður Þórarinsson, en hans getur einungis í tveimur hand-
ritum og er talinn með ágætustu mönnum landsins. Leikur ekki efi
á því, að nafn hans er innskot afritara, sem líklega hefur vitað, hver
söguna samdi,“ ályktaði Barði (1949: 30).
skírnir
25 Barði Guðmundsson 1938: 87. Helstu ritgerðum Barða um þetta efni var safnað
saman að honum látnum í bókinni Höfundur Njálu. Safn ritgerða. Sjá Barði
Guðmundsson 1958.
26 Barði Guðmundsson 1939a: 2. Sjá einnig Barði Guðmundsson 1939b og 1939c.
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 293