Skírnir - 01.09.2017, Page 232
hafa komist í gegnum þetta, eins og fleiri þjóðir. Þessi breyting
kostar sitt fjárhagslega en varla þó svo að miklu varði. Eftir stendur
íslenska þjóðin, sem frændur okkar Írar og fleiri, og verður í lokin
orðin altalandi á ís-enskri mállýsku en íslenskan liggur eftir og
gleymist.
Mörgum enskumæltum útlendingi mun þykja það undarlegt
málafbrigði, skrýtin útskagamállýska sem norðurhjarafólk þetta
tönnlast á — ef og þegar af þessu verður. Þetta úthjaramál verður
sjálfsagt talið vel fallið í eftirhermur og gamansemi, ekki síður en
cockney og skoskar mállýskur. Öllum er kunnugt að bandarísk
máláhrif eru hér slík að gera má ráð fyrir að einhverra fram-
burðareinkenna þaðan gæti í þessari hugsanlegu ís-ensku. En það
væri ótrúlegt að Íslendingar kæmust hjá svipuðum erfiðleikum um
skilning og samsömun í hópi enskumæltra þjóða sem aðrar hjá-
lenduþjóðir mæta sem nú eru mæltar á einhver afbrigði heims-
tungunnar. Ekki þarf að leita til Afríku eða Asíu um þetta. Nægir
að nefna frændur okkar Skota og lágstéttafólk víða í Englandi sjálfu.
Fyrirhöfn og kostnaður, meðal annars við skóla og fræðslu, minnkar
þannig alls ekki við þetta.
En stéttaskipting í landinu vex af þessu að mun. Margt veldur
því, enda verða aldrei allir samferða eða jafnfljótir að ná fullu valdi
á nýjum málmiðli. Enskan er reyndar þegar fyrir löngu orðin
algerlega stéttskipt tungumál. Enska án stéttarstöðu er ekki til. Með
gegnsæinu, orðaforða, frjósemi orðanna, samsetningum og nýyrð-
um hefur íslenskan — satt að segja og þrátt fyrir allt — haldist
ótrúlega sameiginleg öllum stéttum, starfshópum, landshlutum og
kynslóðum Íslendinga allt fram til þessa. Með upptöku ensku eða
ís-ensku þokast allt þetta frá. Mikilvægt hlutverk efri stiga skóla-
kerfisins meðal enskumælandi þjóða er einmitt að kenna uppvax-
andi fólki á framabraut ,,rétta“ og ,,viðeigandi“ ensku. Þessi kennsla
er ekki ókeypis og henni er ekki að ljúka meðal enskumælandi
þjóða. Sama verður hér og margvex ef þessi framvinda gengur áfram.
Upptöku ensku eða ís-ensku fylgja mjög djúptækar samfélagslegar
og menningarlegar kollsteypur sem ekki eru fyrirsjáanlegar allar.
En óhætt er að fullyrða að þeim öllum fylgir verulegur kostnaður,
bæði upphafskostnaður og varanlegur tilkostnaður.
496 jón sigurðsson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 496