Skírnir - 01.09.2017, Page 194
húsið. Því verður ekki neitað að það er rammírónískt að skipa kúa-
hjörð sem talsmann menningarinnar. En þegar hjörðin fer svo að
bera í bætifláka fyrir sjúkling, sem hefur lítið annað gert en að bölva
henni, og segist vilja deyja honum til heiðurs, veit maður varla
hvaðan á sig stendur veðrið. Það er óhjákvæmilegt að líta á dauða
hormónakýrinnar sem áfellisdóm yfir þeim samtíma sem Berg-
sveinn og lesendur hans lifa á.
[É]g vil að lokum deila með ykkur þeirri ákvörðun minni að falla hér í
þessu sláturhúsi í nafni vors ógæfusama kúfræðings, og þótt finna megi
ýmsa hnökra á hegðun hans og hugsun, þá hefur honum framar öðrum
auðnast að eygja þá ósýnilegu þræði sem binda saman kýr og menn … (216)
Það má kasta fram þeirri spurningu hvort sú tragíkómíska kald -
hæðni sem fólgin er í sögu fyrstu tveggja hlutanna sé aðferð til að
gengisfella það sem sagt hefur verið? Eða hvort þetta sé sárgrætil-
egur sannleikur fíflsins sem enginn trúir, og því muni heimurinn
farast „við almenn fagnaðarlæti gamansamra manna sem halda að
það sé spaug“ (Kierkegaard 2000: 32). Þá er kannski ráð að líta ekki
á dauða búkollunnar sem endalok heldur kaflaskil. Í stað þess að
spyrja eins og Gestur, „hvort kálfdauðinn geti verið bending um al-
varlega veilu í íslenskri samtímamenningu — teikn sem ber að taka
af alvöru“ (182), lítum við lengra.
Dauði sögumanns táknar ekki aðeins hrun kapítalismans heldur
markar hann útgangspunkt Gests úr því félagslega til þess af-
brigðilega og órakennda. Persónuleg heimsmynd Gests hrynur í lok
fyrsta kafla — engin vinna, vinir, né fjölskylda — og nú sér fyrir
endann á félagslegri heimsmynd hans líka. Fyrir utan tilþrifamikinn
dauða kýrinnar, sem stendur fyrir hið félagslega, á önnur þróun sér
samtímis stað. Gestur geggjast og eins og Lillian Fedar hefur bent
á í bók sinni Madness in Literature (1980: xi) hefur brjálæðisþemað
í goðsögum og bókmenntum ávallt hverfst um viðbrögð einstak-
linga við umhverfisáhrifum. „Hafi geðrænt ástand okkar ógæfu-
sama kúfræðings verið afleitt áður, er vandasamt að lýsa því hinar
dimmu haustnætur“ (201). Gestur lokar sig af frá heiminum.
Hann læsir að sér og dregur stóla og borð upp að útidyrahurðinni ef ske
kynni að djöflarnir reyndu að komast inn. Hann dregur fyrir glugga og
458 kjartan már ómarsson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 458