Skírnir - 01.09.2017, Page 230
umhugsun. Sama verður sagt um s-hljóðin öll í slavneskum málum.
Íslensk þérun er varla flóknari en enska: thou – thee – thy – thine –
thyself, eða spænska: usted – ustedes – a ustedes…
Íslenskar ritmálshefðir og réttritunarreglur geta naumast ofboð-
ið öðrum Evrópumönnum þegar hugsað er til þess sem tíðkast með
þeim þjóðum. En flækjur og auðveldni málkerfis eru ekki í sömu
þáttum allra tungumála. Einn málkerfisþáttur sem virðist flókinn
og torlærður í einu máli kann að þykja einfaldur og auðveldur í
öðru — og öfugt í öðrum dæmum.
En þegar þýða skal lesmál eða talaða ræðu kemur í ljós að í
lifandi málnotkun er aldrei neinn málsþáttur einn og sér út af fyrir
sig, heldur raðast þættirnir saman eftir þeirri hugsun og kennd, þeim
skilaboðum sem flytja skal. Og boðin kunna að vera vitræn og
nákvæm — eða hreint ekki, og ræð, margræð eða óræð, allt eftir
atvikum. Skilaboðin eru meira að segja einatt ekki bundin ein-
vörðungu við einstök orð eða skil orða og orðasambanda. Og
skilaboðin flytja ævinlega einhverjar upplýsingar um flytjanda
sjálfan og um viðtakanda eða viðtakendur, og um félagsleg tengsl
þeirra í millum.
Um þetta er líklega aðeins ein sammannleg regla: Tungumálið
er eins og skilaboðin sem því er ætlað að flytja, — eins skýrt og
ljóst, eins flókið og þokukennt og skilaboðin sjálf eru hverju sinni.
Og meta verður hverju sinni að hverju er stefnt, hvaða markmiðum
skal ná með þessum málsamskiptum. Erum við að meta fyrirmæli
skurðlæknis í miðri aðgerð eða skipun flugumferðarstjóra við
aðflug og lendingu á alþjóðaflughöfn, hljóðskraf elskenda eða
ástarljóð, eða Tímann og vatnið eftir Stein Steinarr, eða kafla með
,,streymandi“ beinni ræðu úr skáldsögunni Ódysseifi eftir James
Joyce — eða þá ísmeygilega launkímna orðaleiki Williams Shake-
speare?
XI
Áður er þess getið að veraldlegir ríkisyfirburðir valda miklu um
afdrif móðurmála annarra samfélaga á áhrifasvæðinu. Fordæmi og
reynsla frændþjóða okkar var nefnd. Þess var líka getið að það
494 jón sigurðsson skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 494