Skírnir - 01.09.2017, Page 266
búsettir á Íslandi og Íslendingar búsettir í Japan voru lengi vel telj-
andi á fingrum annarrar handar en fjöldi þeirra hefur farið sívax-
andi undanfarna áratugi.
Um og upp úr 1980 fluttu nokkrir íslenskir námsmenn heim
eftir dvöl í Japan. Þeir áttu það sameiginlegt að vilja viðhalda góðum
minningum um Japan og treysta böndin við land og þjóð. Efnt var
til fundar um málið þar sem mættu 17 manns og varð niðurstaðan
sú að stofna Íslensk-japanska félagið. Stofndagur þess var 26. nóv-
ember 1981.57 Fyrirkomulagið var óformlegt framan af, en Kristín
Ísleifsdóttir var yfirleitt í forsvari fyrir félagið fyrsta áratuginn.
Félagið varð brátt einn af hornsteinunum fyrir samskipti landanna
og var leitað til þess með fyrirspurnir og samstarfshugmyndir af
ólíkum toga frá einstaklingum, félögum, fyrirtækjum og stofnunum
jafnt á Íslandi sem í Japan. Félagið starfaði í upphafi náið með Ólafi
Thors, aðalræðismanni Japans á Íslandi, og með tilkomu þess
fjölgaði menningarviðburðum ört, oftar en ekki fyrir atbeina eða
með þátttöku félagsins.
Sumarið 1984 vakti það mikinn óhug landsmanna þegar þrír jap-
anskir jarðfræðingar létust af slysförum við Rjúpnabrekkukvísl þar
sem þeir voru við rannsóknir. Þessi hörmulegi atburður átti eftir að
mynda ný og sterk vinatengsl milli Íslands og Japans. Stjórn Íslensk-
japanska félagsins vann hörðum höndum að því að bregðast við
aðsteðjandi vanda, m.a. að aðstoða fjölda ættingja sem kom til
landsins.58 Ári síðar voru þau Jónas Hallgrímsson og Kristín Ís-
leifsdóttir gerð að heiðursfélögum við Tókýó-háskóla fyrir framlag
sitt (Kristín Ísleifsdóttir 1996). Vigdís Finnbogadóttir þáverandi
forseti vottaði einnig dýpstu samúð sína í opinberu bréfi til jap-
anskra stjórnvalda og aðstandenda hinna látnu. Hlýhugur Íslendinga
530 kristín ingvarsdóttir skírnir
57 Þau sem fóru fyrir stofnun félagsins voru Jónas Hallgrímsson, Kristín Ísleifs-
dóttir, Ragnar Baldursson og Þorsteinn Jónsson, sem öll voru nýkomin úr námi
í Japan, ásamt Eysteini Þorvaldssyni júdómanni og Yoko Þórðarson. Sjá nánar
um starfsemi félagsins fyrstu 15 árin í samantekt Kristínar Ísleifsdóttur (1996).
58 Kvikmyndin Cold Fever eftir Friðrik Þór Friðriksson (1995) er byggð á atvik-
inu við Rjúpnabrekkukvísl, sjá viðtal við Ara Kristinsson kvikmyndatökumann
myndarinnar („Á köldum klaka frumsýnd …“ 1995). Þessi sorglegi atburður
hélt þannig áfram að mynda nýjar og óvæntar tengingar milli landanna.
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 530