Skírnir - 01.09.2017, Page 152
öll á fiskinum. Því væri réttast að nýta Ísland eins og Nýfundnaland:
sem verstöð án fastrar búsetu. Það þyrfti meiri vetursetu vermanna
vegna þess hve snemma þorskurinn gengur á miðin við Suðvestur-
land, og á Íslandi væri rétt að verka áfram í skreið að hluta til frekar
en allur afli færi í salt. En allt þetta mætti gera með farandverkafólki
án þess að endurreisa sveitabyggðina sem hafði reynst svo illa.
Levetzow hafði líka tillögur fram að færa. Hann hafði farið í
kynnisferð vestur á Jótlandsheiðar11 og tekið með sér þá nafnana
Hans Wiium sýslumann og Hans Hjaltalín verslunarstjóra. Þar virt-
ist einmitt að Íslendingar gætu komið að miklu betri notum en
heima á Íslandi.
Heiðar kalla Danir þess háttar gróðurlendi sem á Íslandi héti
lyngmóar. Þar sem skógum var eytt og ófrjóum jarðvegi ofboðið
með ræktun, þar mynduðust „heiðar“, hvergi eins víðlendar og á
vestanverðu Jótlandi. Sem hluti af bújörð gat heiðin komið að
góðum notum; þar mátti beita sauðfé, rífa hrís, skera torf og margt
fleira. En samfelldar víðáttur Jótlandsheiða höfðu þótt óbyggilegar
þar til um 1760. Þá tókst að laða þangað upp undir þúsund þýska
landnema (frá héraðinu kringum Heidelberg) sem höfðu lag á að
rækta kartöflur í sendinni heiðajörðinni; því festist við þá danska
heitið „kartoffeltyskere“. Þeim var reist byggð þar sem heitir Al-
heiði (Alheden) í Víborgaramti. Margt reyndist þeim mótdrægt í
fyrstu, og þegar þá Levetzow bar að var meirihluti þeirra horfinn á
braut, ýmist reknir eða flúnir; aðeins 60 fjölskyldur eftir í 200
íbúðum, og gekk treglega að fá danska íbúa til að fylla skörðin. Það
var því talsvert af lausu húsnæði í þorpum Þjóðverjanna. Búskapur
þeirra virtist ætla að verða nokkurn veginn lífvænlegur, og Íslend-
ingar ættu þá ekki síður að geta spjarað sig á heiðinni, jafnvel þeim
mun fremur sem þeir voru vanari sauðfjárbúskap og kröppum
kjörum; kartöfluræktina hlytu þeir að geta lært á.
416 helgi skúli kjartansson skírnir
11 Það var löngu síðar, sérstaklega eftir stofnun Jótlandsheiðafélagsins (Hede-
selskaben) 1866, sem þau tök náðust á nýtingu lyngheiðanna sem fræg eru úr
sögu Danmerkur. Um eldri heiðabyggð á Jótlandi er hér, auk yfirlitsrita, stuðst
við vefheimildir, m.a. samantekt eftir Henrik Frank (2014) og ráðstefnu-vefritið
Den danske hede (2001). Þar má ekki síst nefna erindið „Hedelandskab og hede-
brug“ eftir Gudrun Gormsen (2001).
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 416