Skírnir - 01.09.2017, Page 63
327þjóðmenning og lagaleg réttindi
Bendikt vildi því ekki „herma eftir“ erlendum fyrirmyndum, heldur
búa til eitthvað séríslenskt sem hæfði aðstæðum. Hvernig þessi sér-
staka eða séríslenska stjórn, sem hæfði íslenskum aðstæðum, ætti
að líta út var þó — kannski eðli málsins samkvæmt — heldur óljóst.
Jón Sigurðsson taldi einnig innlenda stjórn forsendu framfara, m.a.
vegna þess að Danir þekktu lítt til aðstæðna á Íslandi. Jón taldi Ís-
lendinga hafa staðið öðrum þjóðum jafnfætis á þjóðveldistímanum
— „stóðu þeir miklu betur jafnfætis sinni tíð en vér vorri“ eins og
hann komst að orði (Jón Sigurðsson 1841: 91) — en taldi að öðru
leyti þjóðveldið ekki nútímanum fyrirmynd. Fyrir Íslendinga væri
mikilvægast að læra af öðrum þjóðum og færast upp framfarastigann.
Fyrir íslenska þjóðernissinna var það mikilvægt að Íslendingar voru
menningarþjóð frá fornu fari og hefðu staðið jafnfætis eða framar
öðrum á tímum þjóðveldisins. Þrátt fyrir hnignun og vanþróun gætu
Íslendingar borið höfuðið hátt, hnignun landsins væri ekki þeirra
sök heldur afleiðing erlendra yfirráða. Menn gátu lagt mismikla
áherslu á hversu öðruvísi eða sérstakt Ísland væri eða ætti að vera, en
hið sérstaka átti ávallt í togstreitu við hið innflutta og almenna. Þegar
íslenskt nútímasamfélag var að taka á sig mynd leiddi þetta til mik-
illar umræðu um íslenskt þjóðerni, sérkenni þess og sífelldan ótta
um að því myndi hnigna sakir erlendra áhrifa og glata tengslum við
söguna, einkum í vaxandi borgarsamfélagi. Hámarki náði þessi
umræða í upphafningu sveitanna og öræfadýrkun menntamanna á ár-
unum milli heimsstyrjaldanna. Með því að leggja áherslu á endur-
reisn fornrar gullaldar í stað þess að skapa nútímasamfélag á nýjum
(og í raun innfluttum) forsendum, má kannski segja að Íslendingar
hafi verið að gefa nútímanum sérstakan þjóð legan blæ þótt erfitt sé
að ýta ásökunum Kohns um vanmáttarkennd menningarlegrar þjóð-
ernishyggju alfarið til hliðar. Hin þjóðernislega afstaða til fortíðar-
innar er nokkuð þversagnakennd. Annars vegar er það upphafning
gullaldarinnar og hins vegar hnignun og niðurlæging síðari tíma,
stolt og skömm togast hér á. Sagnfræðingar dagsins í dag hafa flestir
gefið þessa söguskoðun upp á bátinn, en flóttinn úr „saggafullum
torfkofum“ í „upphituð steinhús“ er enn tengd við erlend yfirráð
og sjálfstæði í opinberri umræðu, ekki síst í stjórnmálum.
skírnir
Skírnir HAUST 2017 (13.10.2017).qxp_Layout 1 20.10.2017 13:46 Page 327