Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 24
F r í ð a Í s b e r g
24 TMM 2018 · 2
alla (nema ég drekki 5 l af kaffi á dag)), knippi af bönunum, Homeblest
og smokka. Þá skellti ég upp úr. Ef e.t.v. hlegið hálf taugaveiklað þarna
ein í eldhúsinu með smokkapakka í annarri hendinni, eftir á að hyggja.
Undirmeðvitundin þráir greinilega að einhver sveitakarl úr þessum 140
manna firði rati inn fyrir dyrnar. Núna verður mér hugsað til þín og
Hróarskeldu sumarið ’97. Þegar þú komst soldið grobbinn út úr sjoppu
með tuttugu stykkja smokkapakka. Síðan leið vikan og ekkert gekk og
á sunnudeginum kom ég að þér gaddfreðnum fyrir utan tjaldið, búinn
að blása upp alla smokkana og binda hnúta fyrir, sönglandi Where it’s
at með Beck.
Langt síðan ég hef notað þetta orð, gaddfreðinn. Líka langt síðan ég
hef hlustað á Beck.
Ég fékk mér vatnsglas og færði mig niður ganginn, settist við tölvuna
og bjóst til þess að toga kvíðann upp úr holinu, skyrpa honum út í
orðum, en þegar ég var komin hingað í stólinn hafði ég ekkert að segja.
Ég leit yfir rýmið. Hinum megin heyrðist mér dropa úr vaskinum en
annars var allt kyrrt og þögult.
Hljóp ég yfir?
Varla.
Og þó.
Ég elti sjálfa mig upp úr stólnum, í átt að eldhúsinu. Reyndi að ein-
beita mér að skrefunum, hlusta á gólffjalirnar. Það brakaði aðeins í
þeim. Ekkert sem ætti að berast niður sem skarkali. Ég var komin yfir
þriðjunginn af ganginum þegar ég spratt af stað. Það var ósjálfrátt,
náttúrlegt, ég fann fyrir vananum í hlaupinu, fann að ég hafði hlaupið
ganginn í hvert sinn síðan ég kom í húsið. Þetta var afturvirk minning,
eins og að muna hvar maður geymdi hlutinn eftir að hafa fundið hann.
(Verð að hætta því, veit ekki hversu oft ég hef ætlað að vera rosa sniðug
og geyma mikilvægt dót, t.d. aukalykilinn að bílnum, á góðum stað en
gleymt felustaðnum jafnóðum.)
Ég hægði á mér við eldhúsborðið og stökk á kranann til að skrúfa
almennilega fyrir. Þar stóð ég með aðra hönd á krananum, augu og eyru
uppsperrt, fór að heyra í þögninni, fór að sjá floaters svamla fram og til
baka á augasteinunum (var að leita á netinu og fann ekkert íslenskt heiti
yfir þetta, nema vera með stjörnur fyrir augunum, sem er fullróman-
tískt fyrir þessa tilteknu upplifun). Eftir einhverja stund rétti ég mig við,
hélt aftur af stað yfir gólfið, löturhægt nær miðjunni, tá fyrir tá – bíll
keyrði niður götuna og ég stoppaði á meðan, horfði á eftir honum frá
einum glugga til annars þar til hann hvarf úr augsýn. Ég steig fram og