Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 31
É g e r g a m a l l s n i l l i n g u r
TMM 2018 · 2 31
Að loknum málsverðinum fórum við á Ham-tónleika á búllu sem seinna
varð karókíbar sem seinna varð nektarbar, ég veit ekki hvað gengur þar á nú.
Síðan hefur Eileen sent mér bækur. Við höfum hist á Prikinu, á stéttinni fyrir
framan Empire State bygginguna, í anddyri hótels, skipst á leyndarmálum,
gengið saman Dyke March, lessugönguna á hinsegin dögunum í New York,
skipst á leyndarmálum, borðað grænar pitsusneiðar, farið á leynilega fundi í
kjallara, farið í berjamó í hávaðarigningu í Mosfellssveit, setið á Lækjartorgi
og rætt líkamsrækt.
Eileen fluttist ung til New York til að verða skáld. Fyrstu ljóðabækur hennar
komu út á áttunda áratugnum. Hún var lengi það sem menn kalla jaðarskáld
en öðlaðist snögglega landsfrægð þegar höfundar sjónsvarpsþáttaraðarinnar
Transparent byggðu eina persónu þáttanna á henni og verkum hennar.
Sjálfri bregður henni fyrir: kemur útum dyr og rekst í aðalpersónurnar. Auk
ljóðabókanna hefur Eileen skrifað skáldsögur, ritgerðasafn, leikrit og óperu.
Nýjasta skáldsaga hennar er Afterglow a memoir (2017), minningar hundsins
hennar, Rosie.
Ljóð Eileenar draga mann á tálar og inní ljóðaheim sem er ólíkur hinum
evrópska, að mínu áliti verður mannslíkaminn í meðförum amerískra skálda
oft jafningi dýra, jarðar, trjáa, blóma og gróðurs, hann verður goðumlíkt tré
sem gubbar. Þau eru hryllilega heiðarleg.
***
Takk fyrir að samþykkja viðtal við mig fyrir Tímarit Máls og menningar,
Eileen Myles.
Takk sömuleiðis. Tekurðu ekki upp, skrifarðu bara niður?
Já.
Það er æðislegt. Tekurðu aldrei upp?
Nei.
Ókei. Það er þitt mál, mér er alveg sama.
Viltu segja mér hvar þú ert fædd og hvenær, hvað heitir mamma þín, hvað
heitir pabbi þinn, áttu systkini, hvað heita þau – ef þú kærir þig um að svara
því – hvar í röðinni ertu fædd og hvar ólstu upp?
Ég er fædd 9. desember 1949 í Cambridge Massachusetts. Pabbi minn hét
Terence, fólk kallaði hann Ted og mamma mín hét Jenevieve, Jen. Ég á
bróður, Terry, og systur sem annaðhvort heitir Nancy eða Ann, fer eftir
því hvað maður kallar hana. Ég er miðjubarn og ólst upp í Massachusetts,
fyrst í bæ sem heitir Sommerville, sem nú má líkja við Williamsbourg, svo í