Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 90
A u ð u r S t y r k á r s d ó t t i r
90 TMM 2018 · 2
kolli þar til velflestir pottverjar voru farnir að standa upp á ákveðnum tíma-
punkti og teygja úr sér. Dóri, sem þá var ungur gutti að eigin sögn, byrjaði
að bæta í teygjurnar og svo fann hann upp á kallinu: „Kominn tími!“ Smám
saman þróuðust þessar mjúku teygjur yfir í grjótharðar Müllersæfingar.
Skjöldinn á veggnum lét hópurinn gera á 20 ára afmæli æfinganna.
Þórbergur Þórðarson rithöfundur gerði Müllersæfingar frægar, kannski
að endemum. Filmubúturinn, sem sýnir hann kviknakinn einhvern tíma á
sjöunda áratugnum í fjörunni úti á Eiðsgranda, teygjandi kríthvíta skanka
sína út í loftið, varð ekki til þess að auka hróður æfinganna meðal almenn-
ings. Hinir sjálfsöruggu láta sér hins vegar almenningsálitið í léttu rúmi
liggja og Müllersæfingar hafa nú verið stundaðar á barmi Vesturbæjarlaugar
vel á fjórða áratug klukkan 7:30–7:40. Að vísu fer hér enginn úr fötunum,
eins og höfundur æfinganna, hinn danski leikfimikennari Jens Peter Müller,
ætlaðist til, enda bannað að bera sig í laugarbörmum borgarinnar.
Foringinn sveiflar höndunum til beggja hliða.
„Nú er það sveiflan ógurlega!“
„Gylfi er að takast á loft!“ hrópar einhver. Gylfi hefur stundað æfingar svo
lengi sem elstu menn muna og er ætíð fyrstur upp úr pottinum og byrjar að
sveifla sínum löngu og grönnu handleggjum nokkuð á undan okkur hinum.
„Og horfa upp í heiðskíran!“
Rödd Foringjans er hvell en jafnframt undur þýð. Sannkölluð foringja rödd.
Henni getum við ekki annað en hlýtt.
Við teygjum armana upp til himins, fyrst þann hægri og síðan þann
vinstri. Einn, tveir, þrír, fjórir, fimm – og skipta – sex, sjö, átta, níu oooog tíu!
„Þá er það flata, gjörsamlega niður í stein! Og ekki beygja hnén!“ er næsta
skipun Foringjans. Einhver hrópar í aumingjalegum tón: „Þetta hefur lengst!“
Foringinn þrumar á móti: „Nei! Þetta er nákvæmlega jafn langt og í gær!“
Við leggjum lófana í jörðu, eða a.m.k. fingurbroddana, og höldum
hnjánum beinum. Þetta tekur í svona snemma morguns. Ég þarf tvær til þrjár
atrennur áður en lófarnir ná flatir niður á steypuna.
„Og þá skellum við okkur beint til Jennýjar!“
„Sem er væntanleg 7. júní!“ hrópar Kolla með sinni langdrægu rödd. Ef
hún er ekki mætt, af einhverjum ástæðum, tekur Flosi þessa setningu. Hann
á þá næstu:
„Er það með Dreamliner?”
„Nei! Það er með nýju Max vélinni!“ þrumar Foringinn.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti, stundaði Müllersæfingarnar um
árabil. Eitt sinn hafði hún með sér konu sem var í heimsókn hjá henni.
Það var umrædd Jenný. Hún þótti viðræðugóð og henni fannst sundferðin
og kynnin af sundfélögum Vigdísar með því eftirminnilegasta sem fyrir
hana bar í Íslandsferðinni. Þetta tjáði hún Vigdísi sem færði Vinum Dóra
umsögnina við góðar undirtektir. Á facebooksíðu Vina Dóra er mynd af
þeim í lauginni, Vigdísi og Jennýju, og geisla báðar af gleði og hreysti. Þá var