Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 38
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
38 TMM 2018 · 2
Hafa foreldrar þínir haft áhrif á bækurnar þínar?
Algerlega. Verk mín eru skrifuð fyrir þau og af þeim óbeint. Pabbi vildi
verða rithöfundur og mamma var sögukona. Hana dreymdi um að verða
listamaður og á ákveðinn hátt var hún listakona. Í pínulítið öðruvísi lífi hefði
hún verið pínulítið einsog ég. Spennan á milli okkar orsakaðist að einhverju
leyti af því ég raungerði það sem hún var. Ég skapa list fyrir fjölskyldu mína
jafnvel þótt þau lesi ekki mikið verkin. Ég segi fjölskyldusögu okkar.
***
Ertu gift?
Nei.
Áttu kærustu?
Ég er á lausu. Ég ímynda mér að það muni breytast en ég veit ekki hvernig
það gerist.
Áttu börn?
Nei.
Hvort þykir þér skemmtilegra að elska eða vera elskuð?
Vá, áhugavert – það er erfitt að segja sannleikann. Ætli ég kjósi ekki að vera
elskuð en þegar ég fæ ást og er elskuð finnst mér fljótt ég ekki lengur elskuð
og ástin hverfi. Er ég ginnt til þess að elska með því að finnast ég vera elskuð?
Mér finnst ég oftast vera fönguð – gripin glóðvolg. Það gekk best þegar ég
fangaði til mín kærustu. Fyrir tuttugu árum hitti ég konu sem ég ákvað að
elska, ég sannfærði hana um að elska mig, lokkaði hana til mín af miklum
eldmóði og náði í hana. Við vorum saman í nokkur ár. Það var mjög gott, svo
yfirgaf ég hana. Sambandið var rafmagnað og mér líkaði það vel. Mistök mín
eru þau að láta fólk pikka mig upp, frekar en ég pikki það upp.
Ég ætla ekki að spyrja þig hvaða bækur hafi haft áhrif á þig en áttu bók/
bækur sem þú grípur í, sem þú tækir með á eyðieyju? Eileen dregur upp bók
sem liggur undir koddanum í sófanum.
Ég gripi þessa vísindaskáldsögu sem ég er að lesa afþví ég skemmti mér
yfir henni, hún heitir Dark Reflections eftir Samuel R. Delany. Núna elska ég
langar bækur, því lengri því betra, en þannig leið mér ekki áður.
Ég tæki með Violette Leduc, La Batârde / The Bastard – einhvers konar
minningabók kvenhöfundar. Nokkrar uppáhaldsbóka minna eru: Meistarinn
og Margaríta eftir Bulgakov, Kristnihald undir Jökli eftir Halldór Laxness,
Nightwood eftir Djuna Barnes. Í ljóðunum eru það The Hotel Wentley Poems
eftir John Wieners, allar bækur James Schuyler og ég myndi líklega taka með
Decameron Boccaccios afþví ég er alltaf að reyna að klára bókina.