Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 131
U m s a g n i r u m b æ k u r
TMM 2018 · 2 131
greinis) tekið móður sína í sátt þrátt fyrir
höfnun hennar en bróðir hennar Gústi
hefur ekki gert það og vill ekkert af
fyrir hugaðri listsýningu vita. Kamilla er
aftur á móti öll af vilja gerð að aðstoða
við uppsetningu sýningarinnar. Í því
skyni heldur hún í ferðalag til vestur-
strandar Bandaríkjanna þar sem hún
kynnist syni fyrrverandi elskhuga móður
sinnar, háskólakennaranum William
(Bill), sem varðveitir muni úr dánarbúi
föður síns, meðal annars nokkur lista-
verk Sirríar, auk bréfa hennar til elskhug-
ans sem skrifuð voru á tólf ára tímabili,
frá 1973 til 1982. Í gegnum það bréfasafn
kynnist Kamilla móður sinni betur og
kemst að ýmsu sem rótar upp í tilfinn-
ingalífi hennar og í ljós kemur að
kannski hefur hún ekki unnið eins vel úr
fortíðinni og hún vill vera láta.
Listakonan og skilyrði hennar
Íslenskar skáldkonur hafa skrifað um
sköpunarþrána og árekstur hennar við
skylduna í sögum og ljóðum allt frá því
þær hófu penna á loft, jafnvel mætti tala
um þessa togstreitu sem eitt helsta þema
kvennabókmennta.1 Í íslenskri kvenna-
bókmenntasögu má sjá að framan af
þótti varla annað koma til greina en að
bæla sköpunarþrána, að fórna sér fyrir
heimili og börn var heilagasta skylda
allra kvenna og fórnina átti að færa af
gleði og heilum hug. Þegar íslenskar
konur höfðu sent frá sér bækur (þótt
fáar væru) í um hálfa öld (á þriðja og
fjórða áratug tuttugustu aldar) fóru að
koma brestir í þessa mynd; fórnin varð
æ erfiðari og leiddi jafnvel til harma og
ógæfu. Af eldri íslenskum skáldsögum
sem glíma við þennan árekstur listiðk-
unar og kvenhlutverks á áhugaverðan
hátt má til dæmis nefna Dísu Mjöll,
þætti úr lífi listakonu (1953) eftir Þór-
unni Elfu Magnúsdóttur og Villibirtu
(1969) eftir Unni Eiríksdóttur. Báðar
endurspegla þessar skáldsögur vel sam-
tíma sinn og þann vanda sem konur
með listdrauma áttu við að etja. Einnig
eru heimspekilegar pælingar gildur
þáttur þeirra og í Villibirtu má líka sjá
athyglisverðar formtilraunir. Í Dísu
Mjöll segir á einum stað: „Kona er þó
alltaf kona, hvaða hæfileikum, sem hún
kann að vera búin, og hún verður að lifa
lífi sínu í samræmi við siðvenjur síns
þjóðfélags, sinnar stöðu í þjóðfélaginu“
(187) og jafnframt:
Í okkar samfélagi er alloftast örðugt að
vera listamaður, þó enn örðugara að
vera listakona, til konunnar eru gerðar
grimmdarlegar kröfur, hún á að afneita
einstaklingseðli sínu, bæla niður hæfi-
leika sína og þrár, hvenær sem það er
talið bezt henta umhverfi hennar. Hve-
nær er eftirspurn eftir afburðakonum?
Ef þær koma fram, er það nær undan-
tekningarlaust í illvígu þrássi við allt. Þær
fíngerðustu og næmlyndustu eru bornar
ofurliði af skilningsleysi, ruddaskap og
úlfúð grófgerðrar manntegundar, sem er
svo sorglega algeng. (229)
Við fyrstu sýn virðist sem Sirrí velji list-
ina fram yfir börnin sín án verulegra
efasemda um að það sé hið eina rétta í
stöðunni, en þegar nánar er að gáð
kemur þó annað í ljós. Í gömlu blaðavið-
tali segir hún til að mynda: „Á tímabili
hélt ég að listsköpunin væri forsendan
fyrir lífskraftinum og hamingjunni, en
það er ekki svo einfalt. Maður er líka að
lepja dauðann úr skel og kveljast á barmi
helvítis þótt maður skapi og skapi og telji
sér trú um að öðlast með því hamingju.“
(49) Þótt hún viðurkenni að hafa í „sinni
einföldustu og yfirborðslegustu mynd“
fórnað fjölskyldulífinu fyrir listina þá
bætir hún við að það sé „samt aldrei
hægt að snúa baki við upprunanum og
því sem maður skilur eftir sig. Það hang-
ir á eftir manni í löngu bandi og maður