Tímarit Máls og menningar - 01.05.2018, Blaðsíða 46
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
46 TMM 2018 · 2
safnast saman. Það er ekkert sem mér líkar eins vel í heiminum og að vinna
að skáldsögu.
Eftir að heildarsafn ljóða minna kom út [2015] ferðaðist ég mikið, las upp
út um hvippinn og hvappinn, mætti í viðtöl, skrifaði innganga fyrir bækur
annarra, meðmæli með stúdentum, kenndi ritlist, sinnti annarri vinnu en að
frumsemja. Mér þykir gaman að koma fram en ég var orðin tóm eftir langa
törn. Þegar ég skrifa verð ég hamingjusöm, líf mitt verður rétt – það er einsog
allt rati á sinn stað. Á hverjum degi þarf ég að halda kyndlinum logandi, það
má ekki slokkna á honum. Nú er ég að skrifa kvikmyndahandrit að Chelsea
Girls.
***
Segðu mér frá Chelsea Girls (1994).
Hvað viltu vita?
Hvernig varð bókin til?
Mig hafði lengi langað til að skrifa skáldsögu en vandamálið var að ég var
ung og gat ekki verið sama persónan lengi í einu – ég hélt að sama persónan
yrði að skrifa söguna. Ég var ljóðskáld og bjó með kærustu sem vildi alltaf
fara út að gera eitthvað. Okkur langaði til að búa til kvikmyndir. Ég ákvað að
skrifa sögu um líf okkar, hvað væri nákvæmlega að gerast og láta sem ritvélin
væri myndavél og að á hana tæki ég myndir af tilveru okkar – ég myndi skrifa
hljóðin, myndirnar, athafnirnar. Þannig varð fyrsta sagan Bread and Water til.
Fyrstu nóttina sem við hittumst, við kærasta mín þáverandi, sátum við
hérna: borðið var í eldhúsinu, drukkum, tókum amfetamín og ég sagði henni
sögur úr lífi mínu. Hún sagði: Þú ættir að skrifa þetta. En ég bara vissi ekki
að þetta gæti orðið skáldsaga – það liðu tíu, tólf ár þar til ég fór að einbeita
mér að því að koma skáldsögunni saman.
Ég var um þrítugt, ferðaðist töluvert en hélt að höfundar einsog ég dveldu
ekki í gestaíbúðum fyrir rithöfunda, við færum bara til Mexíkó og Indlands
og ég var stödd í Mexíkó, velti fyrir mér endalokum eigin áfengissýki og
minntist tíma okkar kærustu minnar í Maine þegar ég var handtekin af lög-
reglunni og lenti í ótal ævintýrum með brjáluðum konum. Ég hafði beðið
lengi eftir tækifærinu til að skrifa um þetta tímabil og þegar ég var að skrifa
póstkort til vina minna – þarna frá Mexíkó – datt mér í hug: hvað ef sagan
er póstkort sem ég skrifa sjálfri mér frá öðrum tíma í lífi mínu og póstkortið
innihéldi þetta innra samtal um leið og það segði frá öllum andartaksmynd-
unum. Þannig skrifaði ég t.d. söguna Bath, Maine – þar segi ég Eileenu hvað
hafi komið fyrir Eileenu.
Fyrsta avant-garde listin sem ég sá voru listrænar kvikmyndir, t.d. eftir
Truffaut. Hann gerði myndir um líf karls – mig langaði til að gera myndir um
konulíf og það var ég líka að gera með Chelsea Girls, búa til litlar kvikmyndir.