Tímarit Máls og menningar - 01.02.2004, Blaðsíða 34
Stefán Jónsson
þess að ekki eru nógu margar stöður í húsunum og vegna þess að fólk
hefur mismunandi hæfileika. En margt er verulega gott hjá leikhópunum
og fjöldi sýninga er ótrúlega mikill. Þær spanna breitt svið þótt uppi-
standsleiksýningar sem eiga að svala kynjunum séu heitar núna. Dollara-
merkin eru stundum full áberandi á kostnað frumleika þótt öll viljum
við ná hylli íjöldans. En til dæmis sigurganga Vesturports á erlendri
grundu sýnir að listrænn metnaður og djörfung skora flest mörk og veita
stóru leikhúsunum hressilegt aðhald. Menn mega ekki festast í viðjum
vanans.“
Hver er bestur?
Nú er sagt að Stefán Baldursson hœtti sem þjóðleikhússtjóri eftir nokkra
mánuði. Segjum nú svo að þú fengir starfið, hverju myndirðu breyta?
„Guð minn góður,“ segir Stefán og sýpur hveljur. Hann hugsar sig um
drykklanga stund og segir svo: „Ég myndi byrja á að opna alla glugga og
dyr og hleypa inn fersku lofti. Ég myndi reyna að laða að húsinu fólk,
bæði unga og aldna, sem eru að gera spennandi hluti og leyfa því að
spreyta sig. Ég myndi leggja þunga áherslu á að fólkið sem starfaði við
húsið væri ánægt og vera í góðum samskiptum við það, því það skiptir
höfuðmáli að allir séu ánægðir á vinnustað. Ég myndi reyna að koma til
dyranna eins og ég væri klæddur og leyfa fólki að hafa greiðan aðgang að
mér með sínar áhyggjur og drauma. Allir verða að fá að blómstra, allir
verða að fá verkefni sem ögra kröftum þeirra og hvetja þá til dáða. Tæki
manns og tól ryðga ef maður fær ekki að nota þau og sjálfstraustið
einnig. Ég myndi minnka yfirbygginguna í húsinu og endurskipuleggja
deildirnar með góðra manna hjálp. Ég myndi skipuleggja verkefnaval
lengra fram í tímann en nú er gert og standa með mínum ákvörðunum,
vera ekki hræddur þó að önnur leikhús taki ákvarðanir sem ögri mínum.
Þannig veit fólk hvað það fær að gera lengra fram í tímann því það er
óþægilegt að láta boða sig á samlestur með korters fyrirvara. Þetta myndi
bæta starfsandann. Ég myndi líka þróa valddreifingu þannig að ég væri
ekki með öll spil á minni hendi. Ég myndi reyna að fá fólkið með mér til
að byggja upp gott flaggskip íslenskrar leiklistar þar sem allir væru stolt-
ir af að vera í skipshöfninni.
Ég vil fá í starf þjóðleikhússtjóra manneskju sem byggir upp jákvæða
skapandi orku í fyrirtækinu. Ég er orðinn leiður á baknagi. Sjálfsmynd
okkar virðist oft byggjast á því að þurfa að rífa aðra niður. Það er eins
með þessa vinstri-hægri pólitík. Eitt er að líta til hægri og vinstri áður en
maður gengur yfir götu til að verða ekki undir bíl, en þessi þráhyggja sem
32
TMM 2004 • 1