Tímarit Máls og menningar - 01.02.2004, Side 45
Línudans
heima hjá sér eða einhverri álíka einmana konu á þessum tíma
sólarhringsins, sér í lagi um helgar, en fyrst hann ætlaði að mæta
þýddi það að hann var edrú.
Hinn sjúkraliðinn beið þeirra við enda gangsins. Hallaði sér
uppað útflúruðum dyrastaf og hristi höfuðið þegar þau birtust.
„Ég hef aldrei séð annaðeins,“ muldraði hann um leið og hann
benti innum opnar dyrnar. „Sá strax að hann var dauður en tékk-
aði samt á hálsslagæðinni - hinumegin - til að vera viss, áður en ég
hringdi í ykkur. En að öðru leyti hef ég ekki snert neitt.“
Stefán og Katrín gægðust innfyrir. Þau höfðu heldur aldrei séð
annaðeins.
Maðurinn sat álútur á bleiku klósettinu, allsnakinn. Hægri
handleggurinn hékk slakur niður með síðunni sem að þeim sneri
en sá vinstri hvíldi olnbogann á lærinu og studdi undir höfuðið
með krepptum hnefa. Svart skefti á stóreflis hníf stóð útúr hálsin-
um hægramegin, rétt neðanvið eyrað, og oddurinn gekk útum
húðina vinstramegin við áberandi barkakýlið. Dumbrauðir, glans-
andi blóðtaumar lágu niðreftir öxlum hans, bringu og lærum, og
enduðu í tveimur, stórum pollum á flísalögðu gólfinu. Blóðslettur
voru uppá miðja veggi beggja vegna og líka á bleiku handklæðinu
við vaskinn.
„Hver er þetta?“ hvíslaði Stefán. Svo ræskti hann sig. „Hver er
þetta?“ endurtók hann, hátt og snjallt. Of hátt og snjallt, hugsaði
hann um leið og hann sleppti orðinu sem bergmálaði á líflausum
ganginum. „Vitum við það?“ Þetta síðasta hljómaði nokkurnveg-
inn eðlilega, hélt hann. Lundinn kinkaði kolli.
„Mikael Kristinsson,“ las hann uppúr lítilli kompu sem hann
dró uppúr brjóstvasanum, „framkvæmdastjóri.“
„Framkvæmdastjóri hvers?“ spurði Katrín, hvorki of hátt né of
lágt. Lundinn yppti öxlum.
„Það veit ég ekki.“
„Náðirðu í strákana?“ spurði Stefán þegar þau örkuðu frameftir
ganginum. „Árni er rétt ókominn,“ svaraði Katrín. „Guðni var -
ekki tiltækur.“ Stefán rumdi. Það kom honum meira á óvart að
Árni og Geir voru edrú en að Guðni væri það ekki. „Fínt. Þá er best
að við vindum okkur í þetta. Byrjum á húsbóndanum. Það var
hann sem kom að honum, var það ekki?“ Katrín kinkaði kolli.
TMM 2004 • 1
43