Tímarit Máls og menningar - 01.02.2004, Qupperneq 78
Þorsteinn Þorsteinsson
dómlegu hræsni; burt frá allsleysi andans og doða lífsins. - Hvað sem
það kostaði, einveru, útskúfun, annarlegar kvöldstundir, eld, járn, og
sundurhöggna rót: að komast burt.
„Það var gott hjá þér að fara, Artúr Rimbaud,“ ávarpaði skáldið Char
samlanda sinn og fyrirrennara sem hætti að yrkja liðlega tvítugur og ,fór
burt‘. Sigfús endurtekur orðið ,burt‘ fimm sinnum í kvæðinu sem er allt
byggt á hliðstæðum og endurtekningum. Orðin „burt frá allsleysi andans
og doða lífsins“ minna á prósaljóð í fyrstu ljóðabók Sigfúsar, en munur-
inn er eftirtektarverður:
Ég bið ekki um sálarró, staðsettur miðja vega milli himnaríkis og hel-
vítis, nýs og gamals, austurs og vesturs, miðja vega milli hins örðuga
og hins fyrirhafnarlausa, þess sem ég verð að gera sjálfur og hins sem
þeir liðnu hafa búið í hendur mér - nei það væri til of mikils mælzt.
En ég bið um að mér sé veitt lausn frá tómi sálarinnar, hinu hlut-
tektarlausa og ónæma, sem sér ekki ljósið, finnur ekki loftið né vatn-
ið né jörðina, ég bið um að mér sé veitt lausn ífá slíkum degi sem nú
er liðinn að kveldi, yfir tómlegan ffosthimin í apríl.
Efni ljóðanna tveggja er ekki ósvipað en tónninn er gjörólíkur. Eldra
ljóðið lýsir frjóu óþoli, en í hinu síðara er óþolið orðið hamslaust og ekki
lengur skapandi. Aðeins eitt kemst að: „Hvað sem það kostaði, einveru,
útskúfun, annarlegar kvöldstundir, eld, járn, og sundurhöggna rót: að
komast burt.“ Ef miða ætti við þann mælikvarða Sigfúsar sem áður var
getið þá er að vísu ofmælt að eldra ljóðið sé skrifað „af fullum fögnuði
lífsins“ en ekki virðist íjarri sanni að hið yngra sé ort „af bráðum lífs-
háska“. Bæði bera þau aðalsmerki djúprar reynslu.
Það gerir líka þriðja bjartsýnisljóðið, um lífið í líki hunds. „Alveg væri
óborganlegt að vita um hverja hann er að yrkja,“ skrifar Svarthöfði í til-
efni af útkomu Fárra einna Ijóða, og virðist helst ætla að þarna séu á ferð-
inni krassandi svívirðingar um einhverja tiltekna samlanda skáldsins.37
En svarið við spurningunni hlýtur að vera, að mínum dómi: Sigfús er
þarna að yrkja um hlutskipti margra manna, og þar á meðal sjálfs sín að
einhverju leyti. Kvæðið er vitaskuld almenns eðlis, en í því er ástríðuhiti,
háð og heift sem virðist persónulegri en svo að verið sé að yrkja um að-
stæður sem skáldið sjálft eigi enga hlutdeild í.
Að lokum verður vikið hér að einu kvæði Sigfúsar enn frá árunum fýr-
ir 1967 því það lýsir betur en önnur hvern hug Sigfús bar til höfuðstaðar
íslands nokkru eftir heimkomuna frá París. Hugleiða má hve mikið af
orðaforða kvæðisins gæti átt heima í Reykjavíkurljóðum af því tagi sem
við eigum einkum að venjast.
76
TMM 2004 • 1