Tímarit Máls og menningar - 01.02.2004, Page 87
Silja Aðalsteinsdóttir
Á líðandi stund
Menningarviðburðir á vori
í miklu sólskini
Við komum að dyrum Tate Modern á syðribakka Thamesár í þann mund
þegar dyr þess voru opnaðar gestum klukkan tíu á sunnudagsmorgni í
byrjun janúar. Við vorum fyrst inn og morgunþokan enn þunn í lofti í
túrbínusalnum þannig að sólin hans Ólafs Elíassonar skein óhindrað á
okkur og laðaði okkur innar og innar í þennan víðáttumikla sal. Eins og
menn muna komu Bretar nútímalistasafni sínu fyrir í aflagðri orkustöð
enda yfirleitt betur og stærra byggt yfir slík fyrirbæri en listaverk.
Það var einstaklega klókt af Ólafi að skapa sólarstemningu í svartasta
skammdeginu og hugmyndin skilar sér margfalt til safngesta. Þeir haga
sér svolítið eins og á sólarströnd, fara að vísu ekki úr fötum en leggjast
endilangir á gólfíð og góna á sólina eða spegilmynd sína lengst uppi í
loftinu. Eina sex manna fjölskyldu sáum við mynda stóra stjörnu á gólf-
inu með fótunum og glápa heillaða á undrið í loftinu...
Ég hitti Ólaf þegar hann var að kynna sýninguna sína í Listasafni
Reykjavíkur, Frost Activity, sem enn stendur, og spurði hann hvort hann
hefði átt von á þessum miklu og afgerandi viðbrögðum við sólinni sinni.
„Nei,“ svaraði hann, „enda er alltaf erfitt að gera sér í hugarlund við-
brögð fólks. Ég vonaði með sjálfum mér að fólk myndi kannski setjast
upp við veggina og njóta verksins í ró, en ég þorði alls ekki að vona að
það myndi leggjast á gólfið!“
Sólskin gerir fólk glatt og gleðin er einlæg á sýningunni í túrbínu-
salnum. Börn hlaupa hlæjandi um - hér er ekki vandi að hafa börn með á
listsýningu. Enda hefur fólk streymt að. Strax fyrir jól var gestafjöldinn
kominn yfir milljón sem er þrisvar sinnum fleira fólk en komið hafði á
aðrar sýningar í húsinu á jafnlöngum tíma. Sama er að segja um sýningu
Ólafs í Hafnarhúsinu, á henni er meiri áhugi en áður hefur þekkst þar á bæ.
Ólafur var ekki fyllilega sáttur við að ég skyldi leggja áherslu á gleðina
í túlkun á verkum hans og sá ástæðu til að taka fram að list væri ekkert
TMM 2004 ■ 1
85