Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Qupperneq 6
Bréf frá Þórbergi Þórðarsyni
- til Matthíasar Johannessen
Einhverju sinni sagði ég við Þórberg: Þú ert alltaf að skrifa alls kyns körlum og
kerlingum bréf, en þú hefur aldrei skrifað mér eina einustu línu; manninum sem
skrifaði þig inn í kompaníið við allífið!
Bíddu hægur, sagði Þórbergur og kímdi.
Þegar þau Margrét fóru næst til útlanda skrifaði hann mér langt bréf, 52
handskrifaðar síður, um ferðina, skemmtilegt bréf og fróðlegt sem ekki hefur birst
fyrr en nú, að undanskildum stuttum kafla sem kom í Kompaníinu við Þórberg að
honum látnum. Þetta bréf birtist nú í fullri lengd sinni í Tímariti Máls og menn-
ingar, enda held ég að Þórbergi hefði verið það þóknanlegt.
Matthías Johannessen
Kaupmannahöfn, 13. ágiist 1963
Góði kunningi! Sterkar leyfir Karl Marx mér ekki að titla þig.
Efni þessa seðils er hugsað í öllum borgum og öllum farartækjum allt frá
Reykjavík til Soffíu, og í Soffíu skyldi það fest á þennan dýra pappír. En
sakir þrotlausra snúninga og heimsáhyggna í þeirri borg, var langt í frá
að mér ynnist tími til að stinga þar niður penna um fram mína stuttorðu
og andlausu dagbók.
Þetta ferðalag hefur verið tími mikillar og að ýmsu leyti mér áður
ókunnrar reynslu, stundum upp hafið af sætri heims gleði en jafnvel
oftar þrúgað af þrautum og erfiðleikum, svo að maður hefur búist við
blóðtappa eður hjartaslagi, heilablóðfalli eður hreinni hugarsturlun í
næsta andartaki. Heimurinn er orðinn svo fullur af vandraralýð að
maður fær hvergi afgreiðslu án þess að standa í löngum og þykkum bið-
röðum og sólin logar og hitinn bullar, og svo koma málavandræðin þegar
austar dregur í álfuna, því að þar hefur enskan misst sína makt og þýskan
víðast lítt töluð og við ekki fix í þeirri tungu.
Fyrsta lyfting sálarinnar, sem mér og minni eiginkonu til féll á þessari
reisu, veisla í koníaki og öðrum styrkjandi drykkjum, sem frændi þinn
4
TMM 2004 • 3