Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Side 11
Bréf frá Þórbergi Þórðarsyni
blettur var öðruvísi en annar. í gamla daga gat maður skroppið út úr
eimlestunum sé til uppléttis, þar sem þær námu staðar dálitla stund. Nú
er það forboðið og maður verður að láta fyrir berast í lestinni eins og
tukthúslimur, jafnvel þó að hún stansi heila klukkustund eða lengur. Það
er ekki mikið af Unuhúsi í þessu.Ekki vantar þó trúna á Guð: „Kristilegir
demokratar.“ „Vei yður hræsnarar!“
Klukkan var orðin tvö þegar við komum til Vínarborgar. Þar var glaðasólskin
og heiður himinn og líkast því sem okkur væri stungið inn í bakarofn
þegar við rákum höfuðið út úr lestardyrunum. Þó mátti það heita heim-
skautaloftslag hjá því sem síðar kom. Hitar þenja út æðarnar, og þú
hlýtur að vita hvaða afleiðingar þenslan getur haft. Datt þér þetta aldrei í
hug á suðurferð ykkar Hönnu? Ég skammast mín fyrir þá heimsku að
hafa aldrei dottið það í hug fyrr en í þessari reisu, ekki einu sinni suður í
sjálfu hitabeltinu í landi Maós, og veit þó Guð að þar var velgjan máttug.
En ég var bara galvaskur, alveg eins og hundur sem ekki hefur hugmynd
um að hann verður kannski hengdur í fyrra málið.
Talsverðum taugaæsandi snúningum urðum við að standa í á járn-
brautarstöðinni áður en við gátum ekið heim á vort hótel, Hotel Elita,
hvar við fengum gott verelsi sem var í plani Ferðaskrifstofunnar. En allt
þefjaði þar af peningagræðgi.
Nú er gagnlegt að segja frá því í hvílíkum háska við vorum stödd í
þessum hitum vegna forvitni Margrétar á ferðalögum. Hún er alltaf upp-
tekin, vill allt skoða og allt vita og getur haldið uppi endalausu sproki um
það sem hún vill sjá eða fræðast um. Stundum hótar hún að sitja kyrr í
borg eða bæ þangað til hún sé búin að sjá, kannski gamalt hús eða blett
þar sem maður hafði verið hengdur á fyrir mörgum öldum. Og hún man
svo nákvæmlega allt sem hún hefur áhuga á að hún getur lýst því í
smæstu atriðum alla tíð síðan. Hún getur til dæmis lýst ýtarlega rósum í
veggfóðri á hóteli sem hún staldraði í eina kvöldstund fyrir þrjátíu árum.
Og hún er alltaf að spyrja, og út af hverri spurningu hljótast oft langar
ræður, jafnvel í ógúnstugustu kringumstæðum, til að mynda 35 stiga hita
á skuggalausu stræti. Og hún ratar eins og sporhundur gegnum flókið
gatnasamsull, þótt í stórborg sé. Þó þekkir hún enga átt. Þar er ég klók-
ari. Þá er hún ekki sofandi í peningamálum. Hún er hundsnjöll í reikn-
ingi (hund = mjög mikið, sbr. hundgamall, hund-rað = mikla röðin),
enda efst allra í stærðfræði gegnum allan Kvennaskólann og hafði gaman
af að vakna á næturnar til að reikna. Þvílík ónáttúra! Jæja! Ég vaknaði í
niörg ár til að skrifa.
Hún byrjar alltaf veru sína í nýju landi með því að bera peningagengið
þar saman við gengislúsina okkar. Þá fer mér að líða illa, því að ég hef
TMM 2004 • 3
9