Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Page 14
Þórbergur Þórðarson
Margrét. „Ég verð þá víst að rölta með þér,“ sagði ég. „Þú ræður því,“
svaraði Margrét. Þetta var í elsta hluta bæjarins, og nú varð ekki hjá því
komist að ráfa nokkra stund um hann og góna á byggingarlist og gatna-
gerð þeirra tíma. í þessu stauti stóðum við, ásamt góninu í Stefánskirkju,
frá kl. 5 til 9 um kvöldið. Þá er orðið dimmt þar í landi.
Morguninn eftir æddum við snemma á fætur, í stað þess að sofa út
undir hristinginn til Búdapest sem hefjast skyldi kl. 4.35 þá um daginn.
Fyrst varð að fara í banka til þess að fá skipt peningum og þaðan í aðal-
banka til að sannprófa að rétt væri skipt. Svo var rásað til kirkjunnar í
brennandi hita, ennþá meiri en daginn áður. Allt stóð á þani. Og þegar til
kirkjunnar kom var hún harðlæst nema einar dyr sem stóðu í hálfa gátt
svo að við gátum smeygt hausnum inn milli stafs og hurðar og þannig
séð gripinn innan nokkurn veginn. Margrét hætti við að verða eftir í Vín.
Henni fannst Vínarborg fallegur staður og verka mjög vel á sig.
Nálægt Elítu var ein krá þar sem fólk kom og tók sér forfrískingu öls
og víns og matar. Þar komum við nokkrum sinnum og svelgdum niður
um vor spísirör þeirra annarlegu matarréttum og uppfrískandi bjór, sem
gerist fólksins herra og böðull í þeim miklu hitum sem það má hér út
standa. Heitt var við Rín, heitara þó í Vín, en heitust er hin suðræna silki-
hlín.
Þarna í kránni rákumst við á einn enskan, aldraðan lögfræðing, einn
sérdeilis penan og þægilegan mann. Hann hafði haft sína búsetu nokkur
ár í Vín og var viðloðandi gestur á kránni. Hann gaf sig á tal við okkur.
Hann skal hafa haft sitt lossamenti mjög nálægt kránni, því að hann kom
þangað hverja ferðina á fætur annarri og fékk sér eitt vænt staup vfns í
hvert sinn og gekk svo út. Þannig sýndist hann halda sér mjúkum allan
daginn. Einn gang var hans ektakvinna í fylgd með honum. Hún bauð af
sér góðan þokka og var sýnu yngri en maður hennar. Ekki vissi ég um
hennar þjóðerni.
Nú fór að nálgast stóru stundina, máski úrslitastund lífs eður dauða,
því að enn var skafheiður himinn og hiti mun meiri en tvo undanfarna
daga, þó að hann virtist þá svo mikill að varla væri hugsanlegt á hann að
bæta annars staðar en suður í hitabeltinu. Við fengum okkur bíl og ókum
með okkar fátæklega hafurtask út á járnbrautarstöðina. Þar lentum við í
þvílíkri þvælu, þvargi og strefi að við vorum nærri niðurlotum þegar við
komumst loks inn í lestarklefann.
Svo byrjaði skakið til Búdapest. Lestin lét illa á teinunum. Við hrist-
umst mikið. Hitasvækjan næstum óþolandi. Gusturinn sem kom inn um
opna lestargluggana svo heitur að hann veitti enga svölun. Allir gangar
fullir af fólki svo að varla var hægt að hreyfa sig út úr klefunum. Og hit-
12
TMM 2004 ■ 3