Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Síða 17
Bréf frá Þórbergi Þórðarsyni
símanum prófessor í matematík. Ég kvaðst vera einn munaðarlaus ís-
lendingur, staddur hér í ókunnri borg, á leið til þingsins í Soffíu. Mig
langaði til að tala við hann á stöðvunum, en það væri löng leið þangað,
samkvæmt upplýsingum Jóns Helgasonar. Prófessorinn sagðist strax
skyldi senda pilt heim til mín á hótelið. Tuttugu mínútum seinna var
pilturinn kominn. Hann var laglegur í andliti, allur vel á sig kominn og
óvenjulega viðfelldinn, talaði dálítið Esperanto, var að læra. Aðalatriði
erindisins á esperantostöðvarnar var að leitast fyrir hvort ekki mundi
neinn vegur að útvega okkur ódýrari vistarveru. Fyrst var gengið, svo
farið í sporvagni og síðan gengin löng leið. Hitinn meiri en nokkru sinni
áður, hreint helvíti.
Okkur var tekið elskulega á esperantostöðvunum. Við sátum þar
nokkurn tíma. En þar voru annir, því að fleiri ferðalangar voru þangað
komnir upp á fyrirgreiðslur. Mér var ekki gefin sú frekja að fara að nudda
í prófessornum um ódýrari íbúð. Ég sá að hann var þreyttur og hafði í
mörgu að snúast. Við kvöddum og héldum heim til Jóns Helgasonar og
pilturinn með okkur, og nú hafði eldurinn ennþá vaxið, því að nú stóð
sól rétt í hádegisstað.
Og nú kom sá stóri vendipunktur: Margrét sagðist ekki treysta sér til
að fara lengra suður vegna hitans. Við yrðum að snúa hér við til Kaup-
mannahafnar. Ég vildi ekki stofna lífi hennar í hættu og sagði að það væri
best. Þá var það næst að fara á járnbrautarstöðina og panta farið. Það var
óraleið og hitinn lét sig það engu skipta. Þegar klukkan var 35 mínútur
yfir tólf lagði Margrét af stað til járnbrautarstöðvarinnar og pilturinn
með henni. Þau gengu alla leiðina. Ég beið heima á hótelinu og las
Aandemateríalisationer, þorði ekki að víkja eitt andartak frá símanum,
bjóst þá og þegar við upphringingu: Margrét hefði fallið í yfirlið eða
annað verra. Það eru til slög í útlöndum sem heita hitaslög, eins og þú
munt kannast við. Og nú seiglaðist tíminn áfram með hraða ánamaðks-
ins. Klukkan varð eitt, svo tvö, mjakaðist niður í hálfþrjú, streittist við að
komast upp á þrjú. Ég fór að ganga um gólf, skeilti mér niður á milli og
las Aandemateríalisationer, og seint og síðarmeir varð hún hálf fjögur.
Þetta er farið að verða skrýtið. Kannski hafa þeir ekki fundið símanúm-
erið. En ég hafði ótakmarkað traust á piltinum. Hann hlýtur að hafa
fundið númerið. Nú vantar hana tíu mínútur í fjögur. Ég fer að hlusta.
Fótatak úti á ganginum, frá lyftunni. Það er ekki hennar fótatak. Aftur
fótatak. Ekki hennar. Nú heyrðist skörulegt fótatak, og klukkan nákvæm-
lega fjögur brunaði Margrét inn í Superluxó, alls ekki hitaslagsleg í fasi
þó að færi fótgangandi heim frá járnbrautarstöðinni.
„Hvað er nú í fréttum?11
TMM 2004 • 3
15