Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Page 26
Stefán Máni
Um það bil sem síðustu glerflísarnar lentu með kitlandi hringli
á gljáfægðu parketinu birtist náfölt karlmannsandlit fyrir aftan
sófabakið, síðan stökk Helgi Már Sigurðarson æpandi á fætur og
hljóp á þunnum inniskóm og rauðum silkináttbuxum einum fata
að gluggaröðinni í suðurenda stofunnar, hann reif þykk tjöldin frá
og tók gluggadyrnar úr lás, en áður en honum tókst að opna þær
út á sólpallinn kom stórt blómaker úr leir fljúgandi hljóðlaust utan
úr nóttinni og sprengdi sér leið í gegnum tvöfalt glerið í þeim.
Tóti beygði sig í hnjánum, lét öxina síga og skýldi höfðinu með
vinstri handleggnum, en Helgi Már lyftist upp og flaug tæpa tvo
metra aftur á bak inn í stofuna með regnblautt blómakerið í fang-
inu, eins og ósýnileg hönd hefði kippt í hann, og hann lenti harka-
lega á rassinum og síðan á bakinu á hörðu trégólfinu, kaffærður í
mold og vikri, oddhvössum glerbrotum og marglitum blómatætl-
um.
Gluggatjöldin hreyfðust letilega í kaldri gjólunni, regnið steypt-
ist niður á olíuborinn sólpallinn fyrir utan og einstaka dropi sveif
utan úr myrkrinu og inn um opinn gluggann.
Dökkar útlínur ívars hnúajárns birtust í gluggadyragættinni,
hann braut stærstu glerbrotin sem eftir voru í rammanum með
heimatilbúnu handfangi byssunnar, síðan klofaði hann holdvotur
inn í stofuna með trylltan glampa í útstæðum augunum, það
draup af honum ískalt regnið, upp af honum steig römm gufa og
útataðir skórnir skildu eftir óskýr moldarspor á ljósu furuparket-
inu ...
Þátturinn af ívari og Tóta er brot úr skáldsögunni Svartur á leik sem væntanleg er
frá Máli og menningu í Haust.
24
TMM 2004 • 3