Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Side 49
Dánarrannsóknir og morðtilraunir
skuggaboxari er að minnsta kosti fyllilega eitthvað.11 Tilraun manns er
tekið af heilum hug, og þá fordæmd eða prísuð eftir því hversu vel hún
kemst til skila. En ég óska engum þess að vera kallaður ungskáld. Og ég
nenni ekki að eyða tíma mínum í að vorkenna deyjandi ljóðum.
Og gleymum ekki, hér á dánarbeðinu, öllu lífinu. Öllu þessu ótrúlega
iðandi ljóðlífi. Sumarið 2003 fékk ég að ferðast um landið með hópi af
mögnuðum skáldum, og lesa upp fyrir alls konar fólk. Sumsstaðar var
meira að segja mjög mikið af alls konar fólki að hlusta, og sumsstaðar
hlustaði það í margar klukkustundir. Góðum línum var ekki fagnað með
golf-klappi, heldur gólfstappi og húrra-hrópum. Ljóðið var allt í einu
alveg feykilega skemmtilegt, og þetta hóstandi lík hérna við hliðina á mér
var hvergi nærri. Lá fyrir dauðanum þá sem nú. Fólk hlustaði ekki með
höndunum, heldur eyrunum, hló ekki bara að bröndurum í ljóðum
heldur af skínandi gleðinni. Átakagleðinni. Samt var ekki að sjá að þetta
væru „einfaldari“ ljóð, né heldur voru þau bundin eða óheyrilega
mystísk, og þetta voru ekki brandaraljóð. Heldur þung höfuð eins og
beljur að vori. Skoppandi höfuð upp um allar hlíðar og meðfram öllum
lækjum. Allt í einu voru skáldin ekki gamlir karlar, menntaskólakennarar
menntaskólakennaranna minna, heldur ungt fólk með krúttkynslóðar-
lopahúfur og rafmagnsgítara. Leðurjakka og iMac. Án þess að aldurinn
þurfi að skipta máli. Þetta er nefnilega hægt. Vonleysi dánarbeðsins getur
verið víðs fjarri. En til að halda því fjarri þurfa ljóðin líka að vera góð og
skáldin óhrædd við að yrkja. Og það eru vissulega ekki allir sem yrkja
óhræddir. Það er jafnvel minnihluti.
Jóhann Hjálmarsson orti fyrir ekki alltof löngu: „Kannski er best að
leyfa því [ljóðinu] að sofa, að minnsta kosti sumum ljóðum. Hvaða skáld
kannast ekki við þessa baráttu, vafann sem svo erfitt er að sigra? Án
hennar yrðu ekki til ljóð, aðeins orð á haugi málsins. Það er kannski erf-
itt að skera úr þessu, einkum nú þegar skáld virðast svo oft rekin áfram
af heimtufrekju orðanna.“
Einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að „heimtufrekja orðanna“
njóti alls ekki sannmælis. Að það sé sjálf sköpunargáfan, sköpunargleðin,
sem Jóhann vill setja í hlekki. En það er misskilningur að öll góð ljóð séu
ort af vandvirkni, ekki get ég ímyndað mér vandvirkan Rimbaud, eða
11 í dómi sínum um ljóðabók mína Heimsendapestir sagði Geirlaugur Magnússon
að ég væri skuggaboxari. Ég var reyndar kominn á fremsta hlunn með að fara heim
til hans og gefa honum einn eða fleiri á ‘ann, til að afsanna þessa kenningu hans.
En svo stóðst hún náttúrulega. Næst þegar ég hitt Geirlaug ýlfraði ég eins og
hvolpur og seldi honum nýju bókina mína. Að vera ljóðskáld er það sama og að
vera skuggaboxari.
TMM 2004 • 3
47