Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Page 56
Guðmundur Andri Thorsson
upprisu og tilurð nýs sjálfs/skálds. Sú saga virðist Bjarna Bjarnasyni að
einhverju leyti fyrirmynd um það að birtast í sögu sinni undir skálduðu
nafni: þar heitir aðalpersónan Gullbrandur Högnason eins og raunar
kötturinn hans líka. Það segir hins vegar sína sögu um hin ólíku samfé-
lög sem þessir höfundar eru sprottnir úr og skrifa inn í að frásögnin í
Fjallkirkjunni er miklu lygnari en hjá nútímahöfundunum, maður flettir
síðu eftir síðu og þótt eitt og annað hendi þá er „ekkert að gerast“ eins
og nútímalesendur myndu upplifa það, persónur koma og fara án þess
að þjóna „plottinu" sem nútímalesendur hafa því miður vanið sig á að
þurfa í frásögnum rétt eins og sykur í mat. Það er synd að þessi hægi
tími horfinna bókmennta virðist naumast lengur talinn ásættanlegur í
bókum því að við lestur Fjallkirkjunnar endurlifir maður tímaskynjun
bernskunnar þar sem hver dagur líður í lygnri eilífð sem umlykur mann
eins og himinn; lesandi lifir veruleika bókarinnar svo sterkt að dagar
virðast líða á meðan maður les í tvo þrjá klukkutíma og að lestrinum
loknum er maður orðinn mannsævi ríkari...
Þótt þessar þrjár bækur Bjarna, Þráins og Jóns Kalmans kunni að eiga
það sammerkt að eilífðarinnar gætir ekki eins og í Fjallkirkjunni vekur
það eftirtekt manns hversu ólíkar þær eru, þótt allar séu eftir uppkomna
karlhöfunda og allar lýsi af einurð og einlægni erfiðri æsku - þessu tabúi
í íslensku samfélagi þar sem fram til þessa hefur fremur verið sóst eftir
bókum um hina góðu daga æskuáranna, hafi á annað borð verið fallist á
að bernskan sé boðlegt umíjöllunarefni í bókum.
3
Bók Bjarna er hefðbundnust í þeim skilningi að þar er á ferð þroskasaga
um það hvernig drengur kemst til manns - og verður skáld - af eigin
rammleik, og í þeirri bók er minnst dvalið við bernskuna. Það er nánast
eins og höfundur flýti sér að verða fullorðinn. í bókinni allri er jafn og
ögn tjarlægur tónn, Bjarni skrifar blátt áfram og eðlilega, sem stundum
virkar mjög vel, einkum þegar kemur að því að lýsa sárri reynslu. Hann
horfir á hana kalt en reynir ekki meðvitað að „skrifa kalt“, eins og væri
freisting margra höfunda til að auka áhrifamátt frásagnarinnar, og þegar
hann notar stór orð eins og „óendanleiki“ eða „óforgengileiki“ þá eru
þau orð jafn hrein og bein og öll hin, yfirlætislaus, nákvæm.
Hér er til dæmis dálítið lýsing á höfnun. Gullbrandur Högnason er tíu
ára og hefur smám saman komist að raun um að faðir hans er farinn
burt, fyrst í annað hús og svo alla leið til Færeyja þar sem hann er tekinn
saman við aðra konu. Móðirin er með næturgest:
54
TMM 2004 • 3