Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Side 61
Tilgangur. Komdu. Himinn.
markalaust langlundargeð þar til hún kynnist rauðhærðum sjómanni og
ástir takast með þeim þótt hún sé að vísu áfram í hjónabandi sínu og sjó-
maðurinn haldi til Ameríku. Hin sagan er um móðurlausan dreng sem
búið hefur einn með föður sínum um hríð en vaknar einn daginn við það
að ný kona er komin á heimilið og bregst við með því að þagna. Sagan
greinir síðan frá því hvernig stjúpunni tekst smám saman og með mikilli
hægð að vinna drenginn á sitt band. Jón Kalman skrifar ljóðrænan texta,
enda ljóðskáld, fullan af hugkvæmum myndum og táknum - til dæmis í
upphafi bókarinnar þar sem Vogue-skærin gamalkunnu verða honum að
tákni sem minnir á augu dr. Eckleburgs í The Great Gatsby og klippa og
klippa „en klippa samt ekki neitt, nema hugsanlega þessar minningar" -
og smám saman verður til nokkurs konar safn af dúkkulísum sem
klipptar eru út úr tímanum. í upphafi fjórða og síðasta hluta bókarinnar
er sérkennileg hugleiðing í kringum þrjú orð þar sem við sjáum eitt höf-
undareinkenni Jóns Kalmans, hvernig hann fikrar sig hikandi áfram í
texta sínum að merkingu, einhverju mikilvægu sem hann langar að segja
- gott ef ekki sjálfum kjarna málsins:
Fallegt orð, tilgangur, og gott að segja það upphátt meðan jörðin æðir stefnulaus
um himingeiminn. Kannski fallegasta orð tungumálsins, ef maður undanskilur
komdu.
Tilgangur, þylur maður, komdu, og þá er eins og einhver kasti til manns reipi.
Ég held fast um ímyndaðan endann, og jörðin æðir áfram. Himinninn dökknar í
kringum okkur, það er kvöld, hann lýsist og verður síðan blár, það er dagur. En
þessi himinn, bústaður Guðs og þakið yfir tilveru okkar, hann er hvergi til nema
kannski í höfðum okkar. Himinninn er bara orð sem við notum yfir óskiljanlega
fjarlægð - og þangað stefnum við.
Stjörnur blika, hundar gelta, ég segi þessa sögu: þetta er allt af sama meiði.
Maður leitar upphafsins og segir sögur á meðan, hugsanlega til þess að gleyma því
að það sé ekki til neinn himinn. Ekkert upphaf, enginn endir, einungis hreyfmg
og óendanleg fjarlægðin, það er allt. En svo kann það að vera tómur misskiln-
ingur, vísindaleg skekkja og þá er sitthvað sem við skiljum ekki ennþá. Þá er enn
talsverð óvissa og í skjóli hennar get ég skrifað þessi þrjú orð:
Tilgangur. Komdu. Himinn.
Sumir kynnu að kalla þetta tilgerðarlegan vaðal - og hefðu jafnvel sitt-
hvað til síns máls, enda hægt að segja slíkt hið sama um allan listrænan
texta. Og samt er þetta ansi góð lýsing á því sem knýr marga rithöfunda
áfram við skriftir. Þeir leita tilgangs í og með skriftum sínum, leita að stað
sínum í heiminum: þeir leita samfélags við lesendur, nálægðar, jafnvel
líknar, þeir leita líknar af því tagi sem barn sækir til móður - móðurinnar
sem er himinninn í líft þess.
TMM 2004 • 3
59