Tímarit Máls og menningar - 01.09.2004, Page 84
ÁRNI BERGMANN
bjartsýnni trú á það, að Evrópa og svo heimur allur væri á samfelldri
framfarabraut.
Um 1930 sækir sá illi grunur enn harðar að mönnum að „veröld sem
var“, sem menn eins og Stefan Zweig hafa lýst eftirminnilega, sé endan-
lega hrunin og muni ekki aftur rísa. Því Evrópa er þá ekki lengur að rétta
úr kútnum eftir heimsstyrjöldina. Yflr gengur kreppa með geypilegu
atvinnuleysi, sem margir hlutu að taka sem sönnun þess að borgaralegt
samfélag með öflugum kapítalisma væri gjaldþrota. Þessi efnahagskreppa
dýpkar með pólitískri kreppu sem skákar því lýðræði út í horn sem menn
höfðu treyst á: þess í stað sækir fasismi fram, fyrst á Ítalíu, síðan í Þýska-
landi. En meðan framleiðsla skrapp á skömmum tíma saman um 30-40%
í helstu ríkjum Vestur-Evrópu státaði Sovét-Rússland af mikill iðnvæð-
ingu og skorti á vinnuafli og bauðst síðan til þess að gerast bandamaður
allra þeirra sem óttuðust Hitler og hans lið.13
Meðan menn enn vissu fátt um bakhliðina á áætlunarbúskap Stalíns
(grimmd samyrkjuvæðingarinnar og fleira þesslegt) var næsta eðlilegt að
menn litu til Sovétríkjanna, vongóðir um að þar væri einhver svör að
finna sem dygðu við kreppu síns eigin heims. Svo við vísum enn og aftur
til Halldórs Laxness, þá tók hann það fram í formála að Alþýðubókinni, að
hann hefði gerst sósíalisti í Ameríku, „ekki af lestri sósíalískra fræðirita,
heldur af því að virða fyrir mér soltna atvinnuleysingja í skemmti-
görðum“. Og í Gerska cevintýrinu leggur hann mikla áherslu á að Sovét-
ríkin séu á allt annarri leið en Vesturlönd, einmitt með „áætluninni
miklu“ og margítrekar, að það sé lífsnauðsyn fyrir hvern vinstrimann að
taka afstöðu með Sovétmönnum ef hann vilji ekki verða „veghefill fasis-
« 14
mans .
Þetta var margra leið. Sovéttrúin átti sér öflugasta rót í þörf tímans
fyrir jákvæðan valkost.
Hér mætti ýmsu við bæta, til dæmis því að það er mjög ofmælt að
sovéthollir menntamenn og skáld hafi mælt „gegn betri vitund“. Um
þetta er að sönnu erfitt að alhæfa, það var mjög misjafnt hve langt eða
skammt menn komust inn fyrir það yfirborð hlutanna sem þeir sáu sem
í sendinefndum komu til Sovétríkjanna. Menn vildu trúa - og þeim var
sýnt margt sem virtist staðfesta trúna.
Þótt sumir kæmust út fyrir mjög takmarkaða reynslu sendinefnda-
manna (eins og Halldór Laxness gerði að nokkru leyti) höfðu þeir ekki
yfirsýn yfir það sem var að gerast. Þeir vissu t.d. eða þá grunaði að til-
teknir menn hefðu verið handteknir og dæmdir fyrir litlar eða engar
sakir, en enginn gestur gat vitað hve lítill hluti af ógurlegum ísjaka það
var sem hann hafði séð eða heyrt af. Einn helsti sérfræðingur í hreins-
82
TMM 2004 • 3