Heilbrigðisskýrslur - 01.12.1952, Síða 194
1952
— 192 —
telur, að allt blóð á fötum slasaða muni hafa verið frá þessum háls-
skurði. Eftir blóðstorkunni að dæma hafi ekki verið hægt að ákveða
aldur skurðarins nánara en frá 2—8 klst.
Læknirinn telur slasaða ekki hafa haft ytri einkenni heilablæð-
ingar. Slasaði hafi verið rænulítill, en getað aðspurður sagt nafn sitt,
heimilisfang og aldur, veikum rómi, en þó greinilega.
Læknirinn telur, að aðgerð hans á slasaða hafi tekið a. m. k. eina
klst. Taldi hann óhætt að flytja slasaða til Reykjavíkur í aftursæti
góðrar fólksbifreiðar, þar eð erfiðleikum hafi verið bundið að fá
sjúkrabifreið í . . .vík.
Frá .. .vík var slasaði fluttur til Reykjavíkur i fólksbifreið. Sat hann
í aftursæti bifreiðarinnar, skorðaður milli tveggja manna, með sængur-
föt undir sér og yfir sér. Að sögn vitna var ekið mjög hratt á leið til
Reykjavíkur, en vegurinn mun hafa verið góður. Slasaði var lagður
inn á sjúkrahús Hvítabandsins, er komið var til Reykjavíkur, og
dvaldist hann þar í tvo daga. Þaðan var slasaði fluttur á handlæknis-
deild Landspítalans, og segir svo í læknisvottorði prófessors Snorra
Hallgrímssonar, yfirlæknis, dags. 17. marz 1953:
„ó. kom hingað á IV. deild Landspítalans þ. 15. þ. m., kl. 14. Var
hann fluttur hingað frá sjúkrahúsi Hvítabandsins, en þar hafði hann
vistazt í tvo daga. Að sögn var hann lagður inn á sjúkrahús Hvíta-
bandsins vegna áverka, er hann hafði hlotið við líkamsárás. Við
komuna hingað upplýstist, að sjúkl. var með rænu, er hann kom á
sjúkrahús Hvítabandsins, var sæmilega hress á laugardag og fram á
sunnudagsmorgun, en nokkuð ruglaður og mundi ekkert, hvað skeð
hafði í sambandi við áverka þá, er hann hafði hlotið. Fyrir hádegi á
sunnudag versnaði ástand sjúkl. skyndilega, og hann varð meðvit-
undarlaus. Þar eð læknar sjúkl. álitu, að um blæðingu inn í heila-
búið gæti verið að ræða, var hann fluttur hingað. Við komuna hingað
er sjúkl. djúpt meðvitundarlaus, andardráttur mjög hægur og
hryglukenndur. Púls 100 á mínútu, hiti 38.2°. Sjáaldur samdregin.
Sjúkl. allur mjög slappur. Vegna meðvitundarleysisins er ekki hægt
að gera sér grein fyrir, hvort um raunverulegar lamanir sé að ræða.
Blóðþrýstingur 180/80. Babinski beggja megin. Sinareflexar fást
ekki fram. Á höfði, utan við h. auga, er tveggja krónu stór marblettur.
Á h. ökla sést allmikið mar, sem nær allt í kring um öklann niður á
hæl og rist og upp á miðjan legg. Nokkur bólga er um öklaliðinn. Á
neðanverðu v. kjálkabarði er 5 cm langur saumaður skurður.
Þar eð líklegt þótti, að um blæðingu inn á heilabúið væri að ræða,
var strax eftir komuna gerð skurðaðgerð á sjúklingnum og haus-
kú!pan opnuð beggja megin. Þegar hauskúpan var opnuð h. megin og
farið var í gegnum yztu heilahimnu (dura), rann út þó nokkuð af
blóði blönduðum mænuvökva, en hvergi fannst neitt meiriháttar blóð-
samsafn. Smáblæðingar sáust í yfirborði heilans á víð og dreif undir
innstu heilahimnunni (pia), en hvergi kraminn heilavefur. V. megin
virtist yfirborð heilans eðlilegt, og þeim megin kom aðeins lítið eitt út
af blóði blönduðum mænuvökva.
Líklegast þykir, að sjúkl. hafi hlotið mar á neðanverðan heilann
framantil.