Saga - 2016, Blaðsíða 181
kolum.“ — Annars staðar reynir höfundur að skýra hvernig þetta
getur tengst helgihaldi. Alþekkt er að viðarkol finnist í kumlum, og
var það líklega gert til „að hreinsa staðinn … Soðsteinarnir hafa haft
svipað hlutverk …“ (bls. 427) — Hvað eigum við að láta okkur
finnast um þetta? Hvernig afmarkar höfundur þá steina sem hann
kallar soðsteina? Þeir voru eldsprungnir, segir hann. en á prýðilegri
ljósmynd á bls. 352 eru hrúgur af þessum svokölluðu soðsteinum og
sumir þeirra virðast ekki bera merki um að hafa verið í eldi. Getur
verið að einhverjir aðstoðarmenn Bjarna hafi verið óþarflega dug -
legir við að safna soðsteinum?
6. „Á hólnum var afar afmörkuð dreifing á hrájárni (blástursjárni) sem
greinilega hafði verið kastað út um hliðið í hásuður.“ — Þetta á að
sýna að járninu hafi verið fórnað, eins og kljásteinum sem þarna
fundust líka (bls. 381). en ég hygg að það sé reynslan að ýmiss konar
verðmæti finnist á ólíklegum stöðum við forna mannabústaði. Og er
hægt að sjá að járninu hafi verið kastað í ákveðna átt?
7. „Stærð jarðhýsisins er svipuð og stærð elstu og minnstu kirkna
landsins.“ — Athyglisvert, en allar íslenskar kirkjur sem höfundur
tilfærir voru raunar talsvert stærri. kapellan í kapelluhrauni að vísu
aðeins um fimmtungi stærri, og kirkja á Stóru-Seylu í Skagafirði
fjórðungi stærri, en hinar allar meira en tvöfalt stærri (bls. 356 og
417–424).
8. „Jarðhýsið er eina jarðhýsið á Íslandi sem ekki er staðsett við bæ eða
annan mannabústað …“ — Hvers vegna ætti það að eiga við blóthús
fremur en annað?
Mér finnst vanta mikið á að Hólmur sé „á góðu pari við þá blótstaði sem
hafa orðið þekktir á Norðurlöndum á seinni árum …“ eins og Bjarni heldur
fram (bls. 431). Á meintum blótstað fundust næstum eingöngu venjulegir
hversdagsnytjahlutir, eins og járnklumpar, eldsláttusteinar, grýtubrot, kljá-
steinar, brýni, slípisteinar og blýmet, en líka 15 perlur og níu skrautsteinar
(bls. 386). Ég ímynda mér að þarna hafi búið sérvitur einfari, kannski sæmi-
lega efnaður.
Leit Bjarna að blóthúsi er engu að síður virðingarverð því ekkert kom-
umst við áfram í rannsóknum nema einhverjir setji fram nýjar hugmyndir.
en við, leiðinlegu úrtölumennirnir, erum nauðsynlegir líka því annars yrði
leikurinn of auðveldur. Líka ber að nefna að texti Bjarna er skrifaður af sér-
kennilegri frásagnargleði og fyrir bragðið er ánægjulegt að lesa hann, eins
þótt maður geti ekki fallist á allt sem þar er haldið fram.
Gunnar Karlsson
ritdómar 179
Saga vor 2016.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 17.5.2019 10:09 Page 179