Gripla - 2021, Page 142
GRIPLA140
öðrum íslenskum handritum þótt hún sé annars mjög sjaldséð í vestrænum
handritum.11
Hér er þá komin möguleg heimild höfundar Adonias sögu og þarf þá
ekki að leita hennar utan landsteinanna. Auðvitað þarf höfundurinn ekki
að hafa notað nákvæmlega þetta handrit því gera má ráð fyrir að fleiri
íslenskar skólabækur hafi verið til með sama efni. En það er engu að síður
mögulegt að hann hafi þekkt einmitt þetta handrit, til að mynda ef hann
hefur lært við sama norðlenska klaustrið og átti handritið. Ef við skoðum
hvernig þessar dæmisögur eru endursagðar á íslensku í Adonias sögu og
berum það saman við latneska textann sjáum við að líklega er um að ræða
endursögn eftir minni. Við það kemur fátt á óvart því dæmisögurnar eru
bæði stuttar og eftirminnilegar og skólapiltum var eflaust uppálagt að læra
þær utanbókar. Flest þau atriði sem koma fram í íslensku endursögninni
er einnig að finna í latnesku gerðinni en auk þess mun ég benda á nokkur
stíleinkenni sem eru sameiginleg.
Áður hefur söguhöfundinum orðið tíðrætt um hvernig fátækir menn og
lærðir verði undir í átökunum við ríka menn („Nú er þat sýnt at heimurinn
hatar hvern fátækann þótt margt gott kunni, þá er þat þó rétt skynsemi at
eigi virði menn svá andaligar guðsgjafir. En sá er reiknaðr vitraztr er smá-
smugligazt færr at fénu komizt, hvort er þat verðr með nokkurri kúgan
eður klókligri sléttmælgi.“) og heldur svo áfram:
Slíkum greinum hæfa þær fabulas sem fróðir menn hafa versað, ok
ein af þeim var svá fallin at einn hrafn hafði sér til saðningar fengit
eitt ostbrýni, ok til þess at hann mætti þá náðuligar neyta sinn
snæðing flaug hann í skóg nokkurn og settiz í hátt tré. Undir trénu
var einn refur hungraðr ok sér hrafninn með þat tafn sem hann hafði
sér fengit og gjörðizt mjög lystugr til og hugðizt neyta skylldu vizku
og slægðar, og sem hann væri þessi orð til hrafnsins talandi: „Heyr,
hinn virðuligi fugl er kallazt bróðir þess fugls er svanr heitir, fagr
sem Fenix, ok ekki vætta skortir þig við þinn bróður svan utan þat
eitt, at þinn söngr er ei svá sætr sem hans er, ok því er svá at þú hefir
þess ei freista viljat hér til, ok berr þér vel at prófa þína raust er þig
skortir mest áðr.“ Hrafninn varð reifr mjög við sléttmælgi þessa, ok
hyggzt nú skulu prófa sína raust, lengir nú hálsinn og hreyfir fiðrit,
11 Sama rit, 386–88.