Gripla - 2021, Page 204
GRIPLA202
ekki varðveist svo kunnugt sé. Hið sama má segja um ljóðabréf Stefáns
Ólafssonar (um 1619–88) í Vallanesi, sonarsonar Einars, þau eru varðveitt
af því að hann skrifaði þau upp í kver.10 Séra Ólafur Jónsson (um 1560–
1627) á Söndum, samtímamaður Einars Sigurðssonar, orti einnig ljóðabréf
og eru a.m.k. fjögur slík uppskrifuð í kvæðabók hans.11 Hluti af kvæðasafni
séra Einars Sigurðssonar í Eydölum var prentaður í Vísnabók Guðbrands
Þorlákssonar biskups sem kom út árið 1612 en heilsteypt kvæðabók með
kveðskap Einars, í líkingu við kvæðabækur dóttursonar hans séra Bjarna
Gissurarsonar og kvæðabók séra Ólafs Jónssonar á Söndum, hefur ekki
varðveist.12
3 Ljóðabréfið í Lbs 847 4to
Við fyrstu sýn er ekki ljóst um hvers konar kvæði er að ræða. Það hefst
hvorki á ávarpi né heilsunarorðum eins og algengast er með ljóðabréf
heldur að því er virðist á skýringu hug taksins frumtign. Frumtign er heiður
sem ber fyrsta syni eins og kemur fram í Biblíunni og nefnir skáldið dæmi
úr heilagri ritningu því til stuðnings (Fyrri kroníkubók 6. kafli og Fyrsta
Mósebók 25. kafli).13 Þegar grant er skoðað má þó túlka ljóðlínurnar
„Eignast fær frumtign / fyrsti sonur, það er víst,“ sem eins konar ávarp.
Ljóðmælandi lýkur vísunni í fyrstu persónu eintölu, ávarpar viðtakanda og
segir honum að hlíta ráðum sínum: „halt það eg hefi mælt / og hindri þig ei
stór synd“.14 Þá má velta því fyrir sér hvort skrifari ljóða bréfsins í Lbs 847
4to hafi einfaldlega sleppt ávarpsvísunni. Með því að skrifa ljóðabréfið upp
í handrit með kvæðum eftir ýmis skáld er það ekki lengur persónuleg eign
upphaflegs viðtakanda heldur kvæði ætlað lesendum/áheyrendum kvæða-
safnsins í Lbs 847 4to og því ekki þörf á að skrifa upp persónu legt ávarp
til ákveðins viðtakanda.
10 Sigurður Pétursson, „Poeta felicissimus. Latínuskáldið Stefán Ólafs son,“ 78.
11 Þórunn Sigurðardóttir, „Hverfi til yðar heilsun mín,“ 94.
12 Sjá þó handritið JS 583 4to (sjá umfjöllun aftar).
13 Orðið frumtign kemur aðeins einu sinni fyrir í Guðbrandsbiblíu, í Fyrri kroníkubók, 6.
kafla, en annars staðar er tal að um frumgetninga. Leit í Guðbrandsbiblíu fór fram á netinu:
https://biblian.is/gudbrandsbiblia/.
14 Skáletrun er mín hér og annars staðar í tilvitnunum í frumheimildir. Stafsetning beinna
tilvitnana í frum heimildir er færð til nútímahorfs hér og annars staðar í greininni nema í
dæmunum um skriftareinkenni í kafla 4.