Gripla - 2021, Page 206
GRIPLA204
Sigurðssyni í Eydölum til sonar hans, séra Gísla, en fleira kemur til. Í
aftasta erindinu segir ljóðmæl andi: „Falli mér fararheill / að ferðast í
Vatnsfjörð / áður undir lok líð“ (12. er.). Þar með er búið að staðsetja
viðtakanda ljóða bréfsins í Vatnsfirði. Viðtakandi ljóðabréfsins er sonur
ljóðmælanda (skáldsins), hann er frumburður móður sinnar og hann býr
í Vatnsfirði. Ég tel það auðséð að Frumtignarvísur séu ljóðabréf sem séra
Einar Sigurðsson í Eydölum orti til sonar síns séra Gísla Einarssonar í
Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp.
3.1 Tilefni ljóðabréfsins
Velta má fyrir sér hvert tilefni ljóðabréfsins hafi verið. Skáldið segir ekki
fréttir úr heima högum, aðeins lítið eitt af sjálfu sér, og virðist ætlunin með
ljóðabréfinu vera að hughreysta soninn vegna einhverra vandræða í lífi hans
og starfi. Mögulega hefur Gísli skrifað föður sínum áður og kvartað yfir
hlutskipti sínu. Í ljóðabréfinu er syninum sagt að flýja ekki af hólmi heldur
finna ráð (til að leysa vandamálið) og leita friðar (9. er.). Í þessu samhengi
er minnst á hreppstjórn: „hýrna mundi hreppstjórn / ef hlýða vildi þér við,“
sem bendir til þess að ljóðabréfið fjalli um erjur eða ágreining á milli prests
og veraldlegs yfirvalds í sveitinni. Í Ævisöguflokki séra Einars í Eydölum
segir m.a. um Gísla að hann hafi gifst sæmdarstúlku „suður á landi“ og flutt
með henni til Vatns fjarðar.18 Hvorugt þeirra átti bakland á norðan verðum
Vestfjörðum sem kann að skýra, að einhverju leyti að minnsta kosti, vand-
ræði Gísla í embætti Vatnsfjarðarprests, það er að segja ef kvæðið er svar
við slíkum umkvörtunum. Í Ævisögu flokkn um segir að þau hafi hreppt
blessun og barnagróða en „öfundarmenn þó ætti lengi.“19 Oddur biskup
Einarsson, hálfbróðir Gísla, útvegaði honum brauðið árið 1595 en urgur
mun hafa verið í mörgum yfir því að biskup kom ættingjum sínum í góð
embætti, oft þvert gegn fyrir ætlunum annarra valds manna og venju við
embættisveitingar.20 Kann að vera að viðhorf manna við Ísafjarðardjúp
til séra Gísla hafi litast af afstöðu þeirra til frændhygli biskups og það sé
undirliggjandi í ljóða bréfi föður hans. Ævisöguflokkur inn var ortur árið
1616 eins og fram kemur í fyrirsögnum í sumum handritum og í 204. erindi
18 Einar Sigurðsson í Eydölum, Ljóðmæli, 132.
19 Sama heimild.
20 Jón Halldórsson, Biskupasögur Jóns prófasts Halldórssonar í Hítardal I (Reykjavík: Sögufélag,
1903−10), 200; Páll Eggert Ólason, Menn og menntir siðskiptaaldarinnar á Íslandi III
(Reykja vík: Bókaverzlun Ársæls Árna sonar, 1924), 695−97.