Gripla - 2021, Page 234
GRIPLA232
bendir á að lærðari guðfræðingar hafi ekki endilega sýnt eins sterkan áhuga
á skilaboðum um komandi óár og sóknarprestar á borð við Guðmund
Erlendsson.18 Hins vegar var heimsmyndin í grunninn sú sama. Eins og
foreldri óhlýðinna barna sem eru í hættu á að fara sér að voða þurfti Guð
að beita „hrís“ eða líkamlegri refsingu til þess að framkalla iðran og kenna
farsæla hegðun.19 Í samanburði við eilífa glötun var jarðnesk hegning mis-
kunnsemi ef hún dugði til þess að beina sálinni aftur á rétta braut.
Spönsku vísur Ólafs Jónssonar á Söndum geyma svipaða túlkun
á tíma og tíðindum. Skáldið fer ekki dult með að hann flokkar komu
Spánverjanna sem „hirtingu“ um leið og hann upphefur sýslumanninn Ara
Magnússon í Ögri fyrir að hafa skipulagt fjöldamorð. Sjaldan er ein báran
stök og Ólafur á Söndum þræðir þrenn ótíðindi saman í tímaröð máli sínu
til stuðnings: tvennir skæðir smitsjúkdómsfaraldrar (fyrst bráðasótt sem
hafði gengið um tíu árum áður og síðan bólusótt sem felldi margt yngra
fólk) og svo skipbrot Spánverjanna um haustið 1615.20
Samtenging bólu við veru skipbrotsmanna á Vestfjörðum er gott dæmi
um framsetningu sem í kveðskap telst nokkuð augljóslega til mælskulistar
frekar en til upptalningar á staðreyndum. Þótt Ólafur á Söndum hafi hælt
fósturbróður sínum Ara í Ögri fyrir að hafa látið drepa hvalveiðimennina
voru til aðrar frásagnir sem sýndu Ara í miður fögru ljósi.21 Með því
að minna á sameiginlega þjáningu sem snerti landið allt (þ.e. mannskæða
faraldra) í upphafi kvæðisins (exordium) gaf Ólafur viðtakendum sínum
tóninn og sendi þeim sterk skilaboð um að hann væri á bandi þeirra og þátt-
18 Beyer, Lay Prophets in Lutheran Europe, 227.
19 Um uppeldislöggjöf og húsaga sjá: Loftur Guttormsson, Bernska, ungdómur og uppeldi á
einveldisöld: Tilraun til félagslegrar og lýðfræðilegrar greiningar, Ritsafn Sagnfræðistofnunar
10 (Reykjavík: Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1983), 77–78.
20 Sjá Ólafur Davíðsson, „Víg Spánverja á Vestfjörðum 1615 og „Spönsku vísur“ eptir síra
Ólaf á Söndum,“ Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags 16 (1895): 88–163. Athygli vekur að
samkvæmt Ólafi virðist skipbrot basknesku hvalveiðimannanna hafa komið á hæla bólu-
sóttarinnar, en Skarðsárannáll færir hvort tveggja fram í tíma til ársins 1616. Óumdeilt er í
dag að Björn Jónsson fór áravillt með skipbrot hvalveiðimannanna, en hingað til hefur stað-
hæfing Skarðsárannáls verið tekin gild um að bólan hafi gengið árið 1616. Eiginhandarrit
Guðmundar Erlendssonar á kvæðabók sinni Gígju styður eindregið framsetningu Ólafs
á atburðarásinni því þar kemur skýrt fram að Guðmundur lá sjálfur milli lífs og dauða í
bólunni árið 1615 á Hafsstöðum á Skagaströnd, sjá Lbs 1529 4to, 63v.
21 Spánverjavígin 1615: Sönn frásaga eftir Jón Guðmundsson lærða og Víkinga rímur, Jónas
Kristjánsson bjó til prentunar, Íslenzk rit síðari alda 4 (Kaupmannahöfn: Hið íslenzka
fræðafélag, 1950).