Borgfirðingabók - 01.12.2005, Síða 7
Borgfirðingabók 2005
5
ímynd Borgarfjarðarhéraðs
I þessari Borgarfirðingabók eru sögur af ýmsu tagi, sagnfræði,
náttúrusaga, þjóðháttalýsingar, endurminningar, sögur af huldufólki
og reimleikum og fleiri sagnir. Þær eru margbreytilegar, en eiga það
sammerkt að allar lýsa þær fólki, atburðum og staðháttum í Borgar-
tjarðarhéraði eða tengdum því. Þær eru héraðssögur, og það er merg-
urinn í þeim öllum. Og þetta á reyndar ekki einungis við um sögurnar;
annað efni er með einum eða öðrum hætti tengt héraðinu, ritað af
Borgfirðingum eða um þá.
Gildi árbókar sem teygir efni sitt frá afmörkuðu landsvæði er ekki
síst í því fólgið að hún kann að styrkja þá ímynd héraðsbúa að þeir
eigi sér menningu sem tengir þá saman; að sögur þeirra sameini þá um
leið og þær greina þá frá öðru fólki í landinu. Það er eitthvað sérstakt
að vera Borgfirðingur. Ekki svo að skilja að slík ímynd héraðsbúa
gefi þeim ástæðu eða rétt til að setja sig á háan hest gagnvart öðrum
Islendingum. En hún felur í sér hvatningu til að nýta sér arf liðinna
kynslóða til skapa nýtt líf, sérstæða menningu héraðsbúa.
Ársrit héraðsins er auðvitað ekki eitt um að hafa slíkt gildi. Það
gerir margháttuð önnur menningarstarfsemi, sönglist, bókaútgáfa,
myndlist af ýmsu tagi og ekki minnst hið sameinandi upplýsingastarf
sem unnið er á söfnum og í skólum á ýmsum stigum. En gildi árbókar
er sérstætt. Hún fer víða, og þar sem hún er komin inn fyrir dyr er hún
komin til að vera. En því aðeins gerir hún sig gildandi að margir hafi
lagt henni lið og hún eigi erindi til margra.
Margir hafa lagt til efni í þessa bók. Höfundar sagna, greina,
ljóða og pistla eru 34. Um fjölda ljósmyndara verður ekki sagt með
neinni vissu. Fjölmargir hafa léð bókinni myndir. Ofáar eru gamlar
og óvíst hverjir tekið hafa. En samkvæmt ónákvæmri athugun eru
ljósmyndarar milli 50 og 60.
Ritstjórn Borgfirðingabókar þakkar öllum þeim sem lagt hafa bók-
inni til efni með einum eða öðrum hætti og vonar að hún komist nær
því en áður að sanna gildi sitt fyrir íbúa í Borgarfjarðarhéraði.
FTH.