Borgfirðingabók - 01.12.2005, Síða 61
Borgfirðingabók 2005
59
Mér finnst eins og margir, sem skrifa og skrafa um skáldið, haldi
að það hafi verið honum þungur kross að þurfa að framfleyta lífinu við
bústang. Aldrei hefur mér fundist það. Kringumstæðumar vörnuðu
honum ekki máls. Hann létti á hjarta sínu við veröldina. En í honum
var líka ríkt búandmannseðli, sem naut sín við að yrkja og bæta jörð
og umgangast skepnur og haga. Hann skildi vel „búmannsins draum
sem brýnir vinnudug“ og fann síðar í sama máta að það var „gott að
hafa skilað bættu landi í barns síns hendur“. Og ríkt var í honum það í
eðli íslenska bóndans, sem ræktað er í þúsund ár, að lögmáli Darwins
um „survival of the fittest“, þetta að öryggið er fyrir öllu, að vita sig
birgan eins og verða má og nýta til þess öll föng. Ég held að þetta
eðli hafi alltaf haldið aftur af honum að stinga sér í djúpu laugina,
ef hann var ekki viss um að fleyta sér. Hann var einstakt þrifa- og
snyrtimenni í búskap sem öðm, hélt vel á öllum sínum efnum, reyndar
svo nýtinn að sumum þótti ganga úr hófi. Ég man eftir því að við
Benjamín á Hallkelsstöðum vorum saman við verk og hann nýbúinn
að vera á Kirkjubóli að hjálpa Guðmundi við einhverja framkvæmd.
Þá hlær hann upp úr hugsun sinni og segir: „Ekki skil ég að það
borgi fyrirhöfnina hjá honum Guðmundi á Kirkjubóli að rétta upp
hvem einasta nagla sem dreginn er úr spýtu til að nota aftur og aftur.
Svo rekst þetta skakkt og nær ekki haldi og svíkur. Það er nú meiri
nýtnin“. Yfir þessu atviki kími ég stundum í hljóði þegar synir mínir
eru að tuða um að ég sé að nota uppréttinga. Svona varð búnubburinn
ofarlega í okkur sem ólumst upp fyrir seinna stríð, þegar enn var
sjálfsagt að fara vel með og ekki fljótlegt að skreppa í kaupstað eftir
naglapakka eða öðru álíka. Sú kynslóð hefur í ýmsu tilliti lifað þessi
rúm þúsund ár Islandsbyggðar.
Nei, búskaparlífið varð skáldinu engin þraut. Hann hafði burði til
að vinna tveimur herrum dyggilega og láta hvorn styðja annan. En
spennan milli þessara tveggja manna í einum, bóndans og skáldsins,
syngur bakraddirnar í mörgum ljóða hans og lyftir skáldskap þeirra
í hærra veldi.
Og hann átti þar heima sem hann var.
5.
Ég sagði áðan að ég hefði í þriðja lagi einkum kynnst honum
gegnum skáldskapinn. Og heyri ég nú hnussa í einhverjum: „Það
höfum við nú öll.“ Já, má vera, og þó.