Borgfirðingabók - 01.12.2005, Page 67
Borgfirðingabók 2005
65
Ég veit ekki hvort við, sem áttum samleið með 20. öldinni lengst-
af, gerum okkur almennt grein fyrir hvílíkir lukkunnar pamfilar við
vorum að vera uppi samtíða fjölmörgum snillingum í andans ríki,
bókmennta og tónlistar, myndlistar og leiklistar. Laglegt hefði verið
að fæðast á átjándu öld og missa af þeim. Og hvað ætli þeim sumum
hefði svo sem orðið úr sér á þeirri öld? Einn þessara snilldarmanna
var Guðmundur Böðvarsson. Ekki ætla ég að dæma um hvort hann
var besta skáld sinnar samtíðar. Á það hefur víst hver sína mælistiku.
En hitt veit ég að með árunum er hann orðinn eina ljóðskáldið sem
ég les að staðaldri. Ég held ég ýki ekki þó ég segi að ég lesi heildarút-
gáfuna, ljóðahlutann og það klassíska úr prósanum, Ferð fram og til
baka og Þrír brœður, a. m. k. einu sinni á ári. Og þið ættuð bara að
vita hvað ég, gamall maðurinn, fæ oft kökk í hálsinn við að hlusta þar
á nið „lindanna sem að aldrei frjósa“.
7.
Áheyrendur góðir. Forlátið mér þessa langloku, sem vísast hefur
engu bætt við það sem þið vissuð fyrir. Mér gekk stirt að setja hana
saman. Ég hugsaði oft sem svo: Er ekki miklu einfaldara að segja
þetta sem ég var beðinn um í fáeinum setningum, einhvern veginn
svona:
Ég þekkti Guðmund Böðvarsson í marga áratugi og á þau kynni
ber engan skugga í minningunni. Hann var góður maður og gegn
þegn í sínu samfélagi sem gerði þar gott mannlíf betra. En honum
var líka gefin sú gjöf að geta stráð um sig djásnum, sem urðu auðlegð
allra sem skildu íslenskt mál, en þó öllum fremur okkar, sem deildum
með honum í tíma og rúmi því umhverfi sem hann gerði með mörgu
móti eilíft í skáldskap sínum.
Það var bara þetta sem ég vildi sagt hafa.