Milli mála - 2022, Page 9
MILLI MÁLA
8 Milli mála 14/2/2022
ræða þær nánar um ákveðna gerð orðapara þar sem sama orðið er
endurtekið og ýmist tengt með forsetningu eða samtengingu, eða
jafnvel einungis með kommu.
Þrjár greinar fjalla um bókmenntir, hver með sínum hætti.
Guðrún Björk Guðsteinsdóttir fjallar um málnotkun vesturíslenska
skáldsins Kristjáns Níels Jónssonar, eða Káins, og hvernig hann
beitir enskum og vesturíslenskum orðum í textum sínum til að
ná fram ákveðnum áhrifum, svo sem gamansemi og margræðni.
Ingibjörg Ágústsdóttir skrifar um þau djúpstæðu áhrif sem saga
Agnesar Magnúsdóttur og morðanna á Illugastöðum árið 1828 hafði
á áströlsku skáldkonuna Hönnuh Kent. Í sögulegri skáldsögu sinni,
Náðarstund, tekur Hannah Kent sögu Agnesar til endurskoðunar frá
femínísku sjónarhorni. Femínískt sjónarhorn er einnig í forgrunni í
grein Arnórs Inga Hjartarsonar sem fjallar um verkið Stund stjörnunn-
ar (A hora da estrela) eftir brasilíska rithöfundinn Clarice Lispector.
Verkinu lýsir Arnór sem sjálflýsandi skáldsögu eða sjálfsögu en í því
er söguhetjan karlkyns rithöfundur sem semur verk um konu og
skapar þar með kvenpersónu. Rýnir Arnór í karlinn innan sögunnar
og það ferli að skapa konuna.
Að lokum fjallar grein Rúnars Helga Vignissonar um þýðingar
úr millimálum, þ.e.a.s. þegar þýðing á texta úr einu máli á annað er
lögð til grundvallar nýrri þýðingu á þriðja mál. Veltir Rúnar fyrir sér
kostum og göllum þess að þýða úr millimálum.
Auk ritrýndra greina birtum við einnig óritrýnda grein um
Molière eftir Hélène Merlin-Kajman. Merlin-Kajman er prófessor
emerita við Sorbonne Nouvelle-háskólann í París og er sérfræðingur
í frönskum bókmenntum 17. aldar. Greinin byggir á erindi sem hún
flutti 12. október 2022 á málþinginu „Molière í 400 ár“ sem haldið
var í tilefni þess að 400 ár voru liðin frá fæðingu franska leikskáldsins
Molière (1622−1673). Málþingið var skipulagt í samvinnu Stofnunar
Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Þjóðleikhússins
og franska sendiráðsins á Íslandi. Guðrún Kristinsdóttir þýddi erindið
fyrir þetta rit.
Að venju birtum við einnig stuttar þýðingar, að þessu sinni tvær.
Annars vegar birtist hér þýðing Geirs Þ. Þórarinssonar á þremur
þeirra brota sem varðveitt eru eftir forngríska skáldið Mímnermos.
FRÁ RITSTJÓRUM
10.33112/millimala.14.1.1