Milli mála - 2022, Qupperneq 15
MILLI MÁLA
14 Milli mála 14/2/2022
efnið er ekki sjálfstætt að því leyti að það má telja sem undirsvið
annars vegar lýðfræði og hins vegar félagslegra málvísinda og félags-
málvísinda. Lýðfræði, eða manntalsfræði, telur fjölda einstaklinga á
afmörkuðum svæðum; lýðfræðileg málsvísindi hverfast um að telja
fjölda málhafa ákveðins tungumáls á tilteknu svæði.
Fyrstu rannsóknir á sviði lýðfræðimálvísinda voru gerðar í frönsku-
mælandi Kanada á sjöunda áratug síðustu aldar. Markmið rann-
sóknarinnar var að kanna stöðu frönsku í landinu og hvort einhverjar
breytingar eða þróun hefði orðið í hópi tvítyngdra í Quebec-héraði
(Torres i Pla 2011, 184). Í rauninni er hægt að kortleggja tungumál
á hvaða landsvæði sem er en það er þó einkum á tvítyngdum eða
fjöltyngdum svæðum sem slíkar rannsóknir og gagnasöfnun fer fram
sökum þess að þar ríkir áhugi á að kanna stöðu minnihlutamála í
málsamfélaginu. Þannig hafa rannsóknir á stöðu frumbyggjamála í
Rómönsku-Ameríku11 aukist á síðustu árum og rannsóknir af þessu
tagi hafa jafnframt verið gerðar á þeim svæðum Spánar þar sem töluð
eru tvö tungumál.12 Í Katalóníu, til dæmis, þótti mönnum brýnt að
kanna stöðu katalónsku og hversu víðtæk notkun hennar væri í sjálf-
stjórnarhéraðinu, einkum í ljósi þess að í fyrsta lagi var bannað að
nota málið í skólakerfinu um langt skeið á tímum einræðis í landinu
(1939−1975) og í öðru lagi vegna straums innflytjenda frá öðrum hér-
uðum Spánar (Torres i Pla 2011, 185). Á Spáni var fyrsta vísindalega
rannsóknin af þessu tagi gerð árið 1998 og í kjölfarið birti Cervantes-
stofnunin niðurstöðurnar í fyrsta ársriti sínu, Español en el mundo
(Spænska í heiminum). Í þessum ársritum eru birtar samantektir sem
lýsa stöðu tungunnar í ýmsum geirum atvinnulífsins og samfélags-
ins, svo sem á sviði tækni og vísinda, í alþjóðlegum stofnunum og í
fjölmiðlum, ásamt því að fylgjast með þróun tungunnar á ákveðnum
landsvæðum og löndum, t.d. í Bandaríkjunum og í Brasilíu.13
11 Helstu frumbyggjamál í Suður- og Mið-Ameríku eru quechua, aymara, guaraní og mapudungun.
Í Mexíkó, sem telst landfræðilega til Norður-Ameríku, eru helstu frumbyggjamálin náhuatl og
maya-mál. Sjá: https://www.statista.com /statistics/1058273/latin-america-share-indigenous-
language-speakers-country/ og kortlagningu Crevels og Muysken um fjölda málhafa hinna
mýmörgu frumbyggjamála sem töluð eru í Bólivíu.
12 Sem dæmi má nefna að rannsóknarstofan Centre de Recerca en Sociolingüística i Comunicació
(CUSC), sem starfar við Háskólann í Barcelona, helgaði ársrit sitt (15) stórri rannsókn á þessu sviði:
LSC-Llengua, Societat i Comunicació. Í Baskalandi er það í höndum rannsóknarstofunnar
Soziolinguisitka Klusterra að rannsaka og kynna niðurstöður á kortlagningu basknesku sem um
þessar mundir er verið að efla og breiða út.
13 Í umræddu riti birtust úttektir á stöðu spænsku á Íslandi árin 2004, 2007 og 2017.
DRÖG AÐ KORTLAGNINGU SPÆNSKU Á ÍSLANDI
10.33112/millimala.14.1.2