Milli mála - 2022, Page 26
MILLI MÁLA
Milli mála 14/1/2022 25
Til fjórða hópsins (MMH4) teljast þeir málhafar sem gera má ráð
fyrir að hafi mjög gott vald á spænsku. Hér eru á ferðinni löggiltir
þýðendur og túlkar, eða nemendur sem hafa útskrifast með háskóla-
gráðu í spænskum fræðum.26 Á Íslandi eru löggiltir þýðendur
fámennur hópur og þeir sem útskrifast með BA-próf í spænsku frá
Háskóla Íslands ná alla jafna ekki efstu færnistigum, ekki frekar
en á hinum Norðurlöndunum. Til þessa hóps teljast þar af leiðandi
einungis þeir sem hafa lokið MA-prófi frá Háskóla Íslands (Spænska,
Spænskukennsla) eða frá erlendum háskóla.
3.2 Málnotendur með takmarkaða færni í spænsku
Þeir einstaklingar sem heyra undir þennan hóp hafa takmarkað vald
á málinu en ráða við að beita því við ákveðnar kringumstæður þegar
afmarkað efni ber á góma (Moreno Fernández og Otero Roth 2006,
17). Það getur reynst þrautin þyngri að draga fram einkenni þessa
hóps sem gerir það að verkum að grípa þarf til frekari skýringa, þ.e.
málhafar í þessum hópi hafa annars vegar ekki sömu færni og móð-
urmálshafar og hins vegar sækja þeir ekki skipulegt málanám. Þetta
er frekar sundurleitur hópur en helstu undirhópar eru eftirfarandi:
MTM1 – Erfðamálsmálhafar af spænsku eða spænskamerísku
bergi brotnir, alla jafna af annarri eða þriðju kynslóð innflytj-
enda, sem hafa ekki lifað og hrærst í umhverfi sem styður við
tileinkun móðurmáls foreldra.
MTM2 – Íslendingar sem eru búsettir í spænskumælandi
landi.
MTM3 – Innflytjendur frá Suður- og Mið-Ameríku og frá
Íberíuskaganum af öðrum uppruna.
MTM4 – Nemendur sem hafa tileinkað sér spænsku og
útskrifast úr framhaldsskóla og eru með takmarkaða færni í
málinu.
MTM5 – Nemendur sem hafa lært spænsku og útskrifast úr
málaskóla og eru með takmarkaða færni í málinu.
26 Í öðrum löndum eru nemendur menningarmálastofnunar Spánar, Cervantes-stofnunarinnar, á
færnistigi C1 til C2 samkvæmt Evrópurammanum, taldir með. Það á ekki við hér á landi þar sem
ekkert Cervantes-setur er starfandi.
ERLA ERLENDSDÓTTIR, HÓLMFRÍÐUR GARÐARSDÓTTIR OG NÚRIA JIMÉNEZ