Milli mála - 2022, Page 76
MILLI MÁLA
Milli mála 14/1/2022 75
margfaldar rímorð, eins og sjá má í dæmunum um mismunandi
farartæki sem kallast „car“ og mismunandi orð fyrir bíl. Svo leyfir
hann sér einnig smá hrekki eins og þegar hann merkir ekki með
gæsalöppum samsetninguna „sjálfan mig að eta“ í brag þar sem hann
merkir önnur frávik frá íslenskri orðnotkun samviskusamlega, þann-
ig að persónulýsingin sem Sámur dregur upp með raupi sínu um að
verða ríkur með því að borða snapaðan eða stolinn úrgang verður enn
skelfilegri fyrir bragðið, því allt virðist bera að sama brunni.
3. Margfaldir merkingaraukar
Káinn (1920, 134) segir í kvæðinu „Feðratungan“ að þótt íslenskan
flytji ljóð og tjái íslensk náttúruhljóð, þá „er enskan eitthvað mýkri,
/ með unaðshlýrri blæ / því íslenskt mál á ekki / neitt orð, sem
merkir „pie“.“ Og víðar kemur „pie“ fyrir, alltaf óbreytt upp á ensku,
eins og í „Borðsálmi Lily litlu“: „Mig vantar „pie“ og „pudding“ / og
pipar, salt og smér …“ (Káinn 1920, 44). Káinn sýnir fram á að mál-
blöndun leysir í snarhasti þann vanda sem kemur upp þegar mál og
menning eru ekki samstiga. Ýmis kvæða Káins sýna leynt og ljóst
viðleitni hans til að túlka hugtök og reynslu sem honum finnst ekki
hafa fundið sér stað í íslensku máli – millifæra hughrif jafnt sem
merkingu. En oft deila ljóðin hans einfaldlega með okkur innsýn
hans í bráðsniðuga dynti tungumálsins – ekki síst þegar hann setur
enskt og íslenskt hljóðkerfi eða málfar í samspil og myndar óvænta
merkingarauka. En til þess að það skili sér til fullnustu verður maður
stundum að vera vel vakandi og þekkja vel til beggja mál- og menn-
ingarheima.
Sum kvæða Káins eru í raun túlkun eða myndlýsing á yfirskrift
kvæðisins. Titillinn á ljóðinu „Melankóliska“ er tökuorð, fengið að
láni úr Norðurlandamáli en ekki úr ensku. Íslensk orðsifjabók (1989)
segir orðið vera komið úr dönsku á 16. öld,12 enda telur Richard Beck
svo sjálfsagt að allir íslenskir lesendur skilji þetta orð að hann veitir
enga orðskýringu.
12 Þar segir: „melankól(í)skur l. (16. öld) ‘þunglyndur; skrýtinn í hátterni’. To. úr d. melankol(i)sk.
Leitt af gr. melankholía ‘þunglyndi’ af gr. mélas ‘svartur’ og khólos, kholé‘gall’, tengt kenningu
Hippókratesar um að svart gall ylli þunglyndi.“ Sjá málið.is, vef Stofnunar Árna Magnússonar í
íslenskum fræðum.
GUÐRÚN BJÖRK GUÐSTEINSDÓTTIR